Innlent

Hvatti fundargesti til þess að kjósa Hönnu Birnu fram yfir Bjarna

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir sem sækist eftir varaformennsku hjá Sjálfstæðisflokknum sagði að Ísland þyrfti forsætisráðherra sem flytti áramótávarp, en ekki áramótaandvarp eins og undanfarin ár. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði flokkinn hafa raunhæfar tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna sem væri hægt að ráðast í strax. Þorbjörn Þórðarson.

Hanna Birna Kristjánsdóttir sækist eftir því að verða varaformaður Sjálfstæðisflokksins en í ræðu sinni á landsfundi í dag kallaði hún ríkisstjórnina hina séríslensku ófriðarstjórn.

Séra Halldór Gunnarsson, sem býður sig fram til formanns byrjaði á því að lýsa því yfir að enginn hefði hvatt sig til að bjóða sig fram. Hann fór yfir áherslur sínar en lauk máli sínu á því að skora á landsfundargesti, eftir að hafa hlýtt á ræðu Hönnu Birnu, að kjósa Hönnu Birnu sem formann þótt hún sé ekki í framboði til formanns.

Bjarni tók þessu með jafnaðargeði og sagði styrk Sjálfstæðisflokksins felast í því að í flokknum væri fólk með ólíkar skoðanir og viðhorf.

„Styrkurinn liggur einmitt í fjölbreytninni. Þess vegna segi ég við vin minn Halldór Gunnarsson. Mér þykir mjög vænt um þig Halldór minn," sagði Bjarni. Hann telur mikilvægt að þétta raðirnar, en ein af helstu áherslum fundarins eru aðgerðir í þágu heimilanna.

„Við höfum set fram raunhæfar hugmyndir, framkvæmdalegar hugmyndir sem við getum hrint í framkvæmd strax."

Kjör til formanns og varaformanns verður á morgun. Skipulagsreglum flokksins var breytt á síðasta landsfundi á þann veg að ef formannsefni fær minna en 50% í atkvæðagreiðslu þarf að kjósa á nýju á milli hans og þess sem kom næstur honum í atkvæðafjölda. Á þessum landsfundi er í fyrsta sinn kosið eftir þessum nýju reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×