Innlent

Dyravörður sleginn í höfuðið með flösku

Tilkynnt var um nokkrar líkamsárásir í miðbænum í nótt og var dyravörður meðal annars sleginn í höfuðið með flösku. Ekki er vitað um líðan hans en frekari upplýsingar um málin liggja ekki fyrir að svo stöddu segir í tilkynningu frá lögreglu.

Þrír voru teknir grunaðir um ölvun við akstur á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Einn þeirra ók yfir á rauðu ljósi sem og á of miklum hraða og var sá handtekinn og sviptur ökuréttindum. Hann var látinn laus að lokinni sýna- og skýrslutöku.

Þá fékk slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um reyk í fjölbýlishúsi við Fururgrund í Kópavogi um hálfsexleytið í morgun. Þegar slökkviliðsmenn mættu á staðinn kom í ljós að reykinn lagði frá potti á eldavél en svo virðist sem húsráðandi hafi sofnað meðan á eldamennsku stóð. Reykræsta þurfti húsnæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×