Innlent

Guðrúnu boðin sviðsstjórastaða á ný

Guðrúnu Pálsdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra Kópavogs, hefur verið boðið sviðsstjórastarf hjá bænum frá og með fyrsta mars. Fréttastofa Rúv greinir frá þessu.

Þetta er í annað sinn sem Guðrúnu er boðin staðan en hún hefur ekki starfað fyrir Kópavogsbæ síðan hún hætti störfum sem bæjarstjóri í febrúar á síðasta ári. Þá hafði hún gengt stöðunni í tæp tvö ár.

Guðrún hefur verið á fullum bæjarstjóralaunum þrátt fyrir að gegna engu starfi hjá bænum.

Í frétt Rúv segir að starfslokasamningur Guðrúnar hafi verið ræddur í bæjarráði Kópavogs á fimmtudag. Bæjarlögmaður hafi svarað fyrirspurn frá Guðríði Arnardóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, um samninginn. Hann var gerður þegar Guðrún hætti störfum fyrir ári.

Samkvæmt samningnum átti Guðrún að taka við sviðsstjórastarfi 1. september 2012, yrði á bæjarstjóralaunum til 1. apríl 2012 en yrði á sviðsstjóralaunum eftir það.

Tafir urðu á því að Guðrún gæti tekið við starfi sviðsstjóra og fór svo að henni var boðið starf forstöðumanns menningarmála hjá bænum. Því hafnaði hún. Ekki liggur fyrir hvort Guðrún muni taka nýja starfsboðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×