Innlent

Greiðslukortum stolið úr ábyrgðarpósti

Nokkrir íbúar á Reykhólum urðu fyrir því að greiðslukortum þeirra var stolið í flutningum Íslandspósts frá Patreksfirði til Reykjavíkur.

Kortin voru í ábyrgðarpósti og voru geymd í búri sem innihélt tuttugu skráðar sendingar þar með taldinn greiðslukortin og almenn bréf. Á leiðinni til Reykjavíkur hvarf búrið úr bílnum.

„Þegar bíllinn kemur til Reykjavíkur kemur í ljós að það vantar eitt búrið. Það finnst svo við hringtorg í Mosfellsbæ með tveimur bréfakössum og tveimur skráðum sendingum. Við vitum ekkert hvað gerðist en búið er að kæra málið til lögreglu," segir Ágústa Hrund Steinsdóttir tengiliður fjölmiðla hjá Íslandspósti í samtali við Bæjarsins bestu.

Upplýsingafulltrúi Landsbankans segir að almenn bréf og ábyrgðarpóstur eigi alltaf að fara sitt í hvoru lagi á milli staða.

„Þarna erum við að tala um massasendingu á milli staða. Við endurgreiðum viðskiptavinum að sjálfsögðu skaðann enda eru þetta engar upphæðir. Ekki er hægt að taka út nema vissa upphæð á hverjum degi og ekki oft á dag," sagði Kristján Kristjánsson upplýsingafulltrúi Landsbankans við Bæjarins bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×