Innlent

Fimmtán flokkar bjóða fram til Alþingis

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Hátt í fimmtán stjórnmálahreyfingar og samtök undirbúa nú framboð til næstu Alþingiskosninga. Ef svo verður raunin getur kjörseðillinn orðið yfir sextíu sentimetra breiður.

Mikill fjöldi framboða hafa komið fram á sjónarsviðið á undanförnum misserum og allt útlit fyrir að kjósendur muni hafa úr töluverðum fjölda að velja í Alþingiskosningunum þann 27.apríl næstkomandi. Samkvæmt upplýsingum frá Innanríkisráðuneytinu hefur átján listabókstöfum verið úthlutað eða bíða nú afgreiðslu.

Fyrst má nefna eldri framboð á borð við Framsóknarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna og Vinstri Græna.

Ný framboð sem fengið hafa listabókstaf eru Björt Framtíð, Hægrigrænir, Húmanistaflokkurinn og Dögun.

Þá er fjöldi flokka með umsóknir í ferli hjá ráðuneytinu en það eru Lýðveldisflokkurinn, Framfaraflokkurinn, Lýðræðisvaktin, Alþýðufylkingin og Píratar. Þá hefur samkvæmt heimildum fréttastofu hreyfing að nafni Þjóðarflokkurinn aflað sér upplýsinga hjá ráðuneytinu en ekki lagt inn umsókn og í gær var svo stofnaður Landsbyggðarflokkurinn sem stefnir á framboð í vor.

Auk þessarra er ólíklegt að fjórir listabókstafir verði notaðir, það er C listi Samstöðu en flokkurinn hefur lýst yfir að hann muni ekki bjóða fram í vor, E listi Bjartsýnisflokksins en endanleg ákvörðun um framboð hefur ekki verið tekin og þá er ekki vitað hvort Lýræðishreyfing Ástþórs Magnússonar muni bjóða aftur fram. Frjálslyndi flokkurinn og Borgarahreyfingin munu svo bjóða fram undir merkjum Dögunar

Samtals eru þetta því hátt í fimmtán framboð til Alþingis en samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er gert ráð fyrir um fjórum sentimetrum á kjörseðli fyrir hvert framboð og ef svo margir flokkar koma til með að bjóða fram gæti því kjörseðillinn orðið allt að sextíu sentimetrar eða aðeins breiðari en útbreitt dagblað.

Leiðrétting: Í sjónvarpsfréttum var ranglega farið með heiti Alþýðufylkingarinnar. Er flokkurinn beðinn afsökunar á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×