Innlent

Réttindalaus reykspólaði rétt hjá lögreglustöðinni

Reykjanesbær
Reykjanesbær
Lögreglan á Suðurnesjum hafði um helgina afskipti af þremur ökumönnum sem allir voru réttindalausir.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að til eins þeirra hafði sést þegar hann var að láta bifreið sína spóla við slökkvistöðina. Þegar piltur var tekinn tali kom í ljós að ökuskírteini hans var útrunnið.Þá fann hann ekki skráningarskírteini bifreiðarinnar, þrátt fyrir leit í henni.

Það sem ekki kom fram í tilkynningunni frá lögreglunni er að slökkvistöðin, þar sem pilturinn var að reykspóla, er á móti lögreglustöðinni í bænum. Nokkrir metrar skilja húsin að. Lögreglumennirnir þurftu því ekki annað en að kíkja út um gluggann til að sjá athæfi piltsins.

Honum var gerð grein fyrir því að hann mætti ekki aka réttindalaus og ef til hans sæist vera að spóla á bifreiðinni yrði hann sektaður fyrir það.

Annar ökumaður, karlmaður á þrítugsaldri, ók glaðbeittur um götur í umdæminu. Í ljós kom að hann hafði aldrei öðlast ökuréttindi, þegar lögregla ræddi við hann. Sá þriðji var með útrunnið ökuskírteini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×