Innlent

Telur hugmyndir um danskt leigukerfi ekki hafa afdrifarík áhrif á leigumarkað

Gylfi Arnbjörnsson
Gylfi Arnbjörnsson
„Það er hundrað ára reynsla af þessu kerfi í Danmörku," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, spurður út í hugmyndir alþýðusambandsins um nýtt leigukerfi hér á landi að danskri fyrirmynd. Hægt yrði að leigja 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu á tæpar 88 þúsund krónur á mánuði ef hið opinbera byði upp á félagslegt leiguhúsnæði að danskri fyrirmynd. Þetta kom fram á fundi Alþýðusamband Íslands, sem kynnti í gær hugmyndir sínar um upptöku sambærilegs kerfis hér á landi, en í viðtali við Vísi kemur fram að Gylfi telur hugmyndina ekki hafa afdrifarík áhrif á almennan leigumarkað.

Danska kerfið gengur þannig fyrir sig að íbúarnir reiða fram tvö prósent af kostnaði húsnæðisins í upphafi og fá þau svo endurgreidd þegar þeir flytja út. Í ímynduðu dæmi ASÍ um hina dæmigerðu 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu yrði það framlag rétt tæp hálf milljón.

Spurður hvort slíkt gæti orðið íþyngjandi fyrir þann hóp sem úrræðið er hugsað fyrir, enda hálf milljón allnokkur peningur fyrir lágtekjufólk, segir Gylfi að slíkt gæti hugsanlega orðið erfitt fyrir suma. Hann bendir hinsvegar á að á leigumarkaðnum í dag er þess oft krafist að leigjendur reiði fram þriggja mánaða leigu sem tryggingu, „og þá erum við oftar en ekki komnir í sambærilegar upphæðir," segir Gylfi.

Hugmyndin hefur ekki verið kynnt hugmyndirnar fyrir ríkisstjórninni en til stendur að kynna hana á fundi með þingnefndum Alþingis næsta fimmtudag. Spurður hvort hugmyndin gæti haft mikil áhrif á leigumarkaðinn, telur Gylfi svo ekki vera. Hann bætir við að þeir sem gætu nýtt sér þessi úrræði er hópur sem telur um 20 prósent af þjóðinni.

Hugmynd ASÍ gengur einnig út á að sveitarfélögin komi að þessu úrræði. Gylfi segir þó nánari útfærslur ekki komnar fram hvað það varðar. Til þess að þetta geti orðið að veruleika þarf lagasetningu til þar sem hugmyndin felur í sér að ríkið greiði meðal annars niður vaxtastyrki. „En ég held að þetta gerist ekki fyrir næstu kosningar," segir Gylfi að lokum.

Yrði dönsku fyrirmyndinni fylgt væri leigan í hinu félagslega húsnæðiskerfi 29 til 43 prósentum lægri en leiguverð á markaði í dag, samkvæmt útreikningum ASÍ. Munurinn yrði mestur í Reykjavík og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.


Tengdar fréttir

Húsaleiga yrði allt að 43% lægri

Hægt yrði að leigja 100 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu á tæpar 88 þúsund krónur á mánuði ef hið opinbera byði upp á félagslegt leiguhúsnæði að danskri fyrirmynd. Þetta segir Alþýðusamband Íslands, sem kynnti í gær hugmyndir sínar um upptöku sambærilegs kerfis hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×