Innlent

Auknar fjárveitingar til RÚV nema 864 milljónum - "afskaplega undarleg forgangsröðun“

„Ég tel þetta vera afskaplega undarlega forgangsröðun, svo ekki sé dýpra í árina tekið," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins um frumvarp til laga sem gerir ráð fyrir auknum fjárveitingum til RÚV sem nema 864 milljónum. Guðlaugur Þór var í viðtali við Reykjavík síðdegis í dag.

„Það var kaldhæðnislegt að stuttu áður en við greiddum atkvæði um RÚV að þá var Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður, með sérstaka umræðu um hjúkrunarrými í landinu. Þar er mikill vandi, bæði núna og fyrirsjáanlegur."

Guðlaugur Þór bendir á að landsmenn þekki núna flestir þann vanda sem geisar í heilbrigðisþjónustunni hér á landi. Það skjóti því skökku við að núna sé ákveðið að auka við fjárveitingar til RÚV.

„Þingmenn nefndu einmitt tækjakaup Landspítalans þegar þeir sáu þessa tölu sem á að setja aukalega í RÚV, 864 milljónir. Menn hljóta að spyrja sig hvort það séu ekki brýnna að koma þessum peningum annað. Við þekkjum tækjamál spítalans og einnig löggæsluna."

„Það að menn segi að það sé forgangsmál að setja 864 milljónir, til viðbótar, í ríkisfjölmiðilinn og takmarka ekki það sem hann getur gert á þessum markaði, það finnst mér í raun alveg ótrúlegt," segir Guðlaugur Þór.

Hægt er að nálgast viðtalið við Guðlaug Þór í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×