Innlent

Tímabært að opna gjörgæslu á geðdeild Landspítalans

Helga Arnardóttir skrifar
Það er löngu tímabært að opnuð verði gjörgæsla á geðdeild Landspítalans til að sporna gegn því að mjög veikir einstaklingar geti strokið. Þetta segir framkvæmdastjóri geðsviðs sem telur mögulegt að opna slíka gjörgæslu í haust með ódýrum hætti og til þess skortir fjármagn.

Í fréttum í gær var sagt frá 22 ára pilti Hersi Þór Péturssyni sem sloppið hefur í fjórgang út af geðdeild. Hann var sviptur sjálfræði tímabundið vegna alvarlegra geðraskana og fíknefnavanda. Hersir strauk frá deildinni í fyrrakvöld og hefur ekkert til hans spurst. Móðir hans gagnrýndi að fá úrræði væru til staðar í geðheilbrigðiskerfinu fyrir svona alvarlega veika einstaklinga. Páll Matthíasson framkvæmdastjóri á geðsviði Landspítalans segir brýnt að aðskilja hjúkrun hinna veikustu og þeirra sem eru minna veikir.

„Auðvitað kemur það stundum fyrir að fólk í rauninni er ekki sátt við að vera hjá okkur og vill fara út. Undanfarin ár finnst mér í vaxandi mæli hafa borið á því að fólk hefur brotist út. Geðdeildir eru ekki fangelsi, þetta er ekki heldur réttargeðdeild. Þetta eru almennar móttökudeildir og við þurfum í rauninni að geta haft þær öruggari án þess að breyta þeim í rammgert fangelsi."

Hann segir löngu tímabært að komið verði á fót gjörgæslu innan geðdeildar sem tíðkist erlendis.

„Þá breytum við einni af fjórum móttökudeildum hérna í húsinu hjá okkur í svokallaða geðgjörgæsludeild og við stefnum að því að fara í það á þessu ári. Þarna yrði meira rými, auknir möguleikar á því að aðskilja fólk og í rauninni öruggara umhverfi með öflugra eftirliti, þar sem fólk getur síður skaðað sig og búið við betri aðstæður."

Hann segir mögulegt að opna geðgjörgæslu í september. Geðdeildin hefur þurft að skera niður um tæplega fjórðung frá hruni. Páll segir geðgjörgæslu kosta um 120 milljónir en deildin hafi fengið um 40 milljónir til að opna slíka deild.

„Við þurfum meiri pening til og við verðum að finna hann í rauninni úr okkar rekstri bara til þess að ná trabant útgáfunni ef svo má segja af svona geðgjörgæsludeild, en við getum bara ekki beðið með það," segir Páll




Fleiri fréttir

Sjá meira


×