Innlent

"Við gerum okkar besta"

Boði Logason skrifar
Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir eru í Andwerpen í Belgíu þar sem þau munu kynna Ísland.
Jón Gnarr og Katrín Jakobsdóttir eru í Andwerpen í Belgíu þar sem þau munu kynna Ísland.
„Ég er ekki búin að hitta restina af hópnum en mér skilst að það sé mikil bjartsýni hjá mönnum - við gerum okkar besta," segir Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra. Í kvöld verður tilkynnt hvort það kemur í hlut Reykjavíkur að halda World Outgames leikana árið 2017 eða Miami í Bandaríkjunum.

Katrín er stödd í Antwerpen í Belgíu, ásamt borgarstjóranum Jóni Gnarr, en í kvöld verða þau með kynningu fyrir Íslands hönd. „Þar munu borgirnar tvær, Miami og Reykjavík, kynna sig í klukkutíma. Svo eftir það verða spurningar úr sal, sem við munum svara - og eftir það verður kosið hvor borgin fær leikana. Úrslitin verða svo kynnt í kjölfarið," segir hún.

World Outgames er stór viðburður á heimsmælikvarða, og ef Ísland verður fyrir valinu, verða þeir stærsti virðburður sem haldin hefur verið á Íslandi til þessa. „Það er búist við um 12 til 15 þúsund keppendum, og síðan koma gestir með þeim. Við eigum von á gríðarlega miklum fjölda hingað til lands, ef við verðum fyrir valinu. Þetta er náttúrulega mikil innspýting fyrir efnahagslífið og góð auglýsing fyrir landið," segir hún.

Katrín er bjartsýn. „Þetta verður bara spennandi, við verðum landi og þjóð til sóma," segir hún.

Úrslitin verða kynnt á slaginu 21 í kvöld og verður að sjálfsögðu sagt frá þeim á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×