Innlent

Fæstar sakfellingar á Suðurlandi

Töluverður munur er á sakfellingarhlutfalli héraðsdóma á Íslandi samkvæmt gögnum sem Páll Hilmarsson tók saman og vann úr af vefsíðu héraðsdómanna.

Þar kemur fram að flestar sakfellingar á landinu séu í Héraðsdómi Norðurlands eystra, eða 96,42 prósent sakfellingar, en á Suðurlandi er þetta hlutfall aftur á móti 88,42 prósent. Og munar því um átta prósentustigum á milli héraðsdómanna.

Héraðsdómur Suðurlands sker sig raunar ekki sérstaklega úr hvað sakfellingarhlutfallið varðar því héraðsdómar á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi Vestra eru allir um 89,9 prósent.

Páll tók gögnin saman vegna umfjöllunar Stöðvar 2 um sakfellingarhlutfall Símons Sigvaldarsonar héraðsdómara við Héraðsdóms Reykjavíkur. Í ljós kemur að hann er með hæsta sakfellingarhlutfallið, sem eru 99,3 prósent.

Næsti dómari á eftir er Sveinn Sigurkarlsson, með 98,1 prósent. Sá dæmdi þó í 110 málum á meðan Símon dæmdi í 287 málum. Ef litið er til fjölda dóma sem dómara hafa fellt, þá kemst Ragnheiður Harðardóttir nær Símoni en Sveinn. Hún dæmdi í 274 málum en sakfellingarhlutfallið hennar er 97,08 prósent.

Hægt er að nálgast gögn Páls hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×