Innlent

Borgar sig ekki að hreinsa ströndina í Kolgrafarfirði

JHH skrifar
Ströndin í Kolgrafarfirði var þakin síld.
Ströndin í Kolgrafarfirði var þakin síld.
Alls óvíst er hvort það borgi sig að hreinsa sjávarbotninn í Kolgrafarfirði þar sem mikið magn af dauðri síld liggur. Starfsmaður Umhverfisstofnunar skoðaði fjörur Kolgrafarfjarðar síðastliðinn föstudag til að fara yfir stöðuna.

Þá voru aðstæður á fjörum kannaðar og var nokkuð mikið magn af dauðri síld/fitu í fjöruborðinu á um það bil 1/3 fjörunnar frá brúnni að vestanverðu og meira eða minna samfellt vel fram hjá bænum Eiði. Á öðrum stöðum í fjörunni var ekki að sjá áberandi magn.

Það er mat Umhverfisstofnunar að þar sem fiskur liggur í sandfjöru og ekki er mikið um gróður ætti að vera mögulegt að plægja niður eða grafa skurði og ýta dauðri síld í og moka yfir ef veruleg ólykt verður. Umhverfisstofnun og Náttúrustofa Vesturlands telja að öðru leyti sé best að láta hið náttúrulega niðurbrot ganga sinn gang í fjörunni. Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að þessar tvær stofnanir telji að nauðsynlegt sé að náið verði fylgst með ástandinu og staðan endurmetin ef athuganir benda til að fuglum stafi hætta af grút.

Í vatnsfasanum innan brúar var mikið af tægjum og einnig töluverð brák á yfirborðinu og einstaka dauð síld. Þetta bendir til að dauður fiskur á botni fjarðarins sé að leysast upp og blandist í vatnsfasann. Sé það rétt ættu líkur á að það myndist mjög súrefnissnauðar aðstæður við botninn í tengslum við rotnunina að minnka, en kanna þarf hvernig botninn lítur út áður en hægt er að fullyrða nokkuð um það. Rannsóknir á því standa yfir af hálfu Hafrannsóknarstofnunar.

Hvað varðar ástand sjávarins og botnsins er beðið eftir gögnum frá Hafrannsóknastofnun til að meta það. Meta þarf hvort lífríki stafi hætta af niðurbroti fisksins og hver áhrif yrðu af hreinsun. Stundum er það svo að áhrif af hreinsun eru verri fyrir lífríki en áhrif t.d. mengunar eða niðurbrots lífvera.

Dauði og niðurbrot lífvera í sínu náttúrulega umhverfi, s.s. eins og hvalreki eða hræ af hreindýrum á heiði, fellur ekki undir bráðamengun. Bráðamengun snýr að inngripi mannsins í umhverfið sem getur valdið skaða eða hættu fyrir umhverfið. Talsverður munur er t.d. á því hvort fiskur deyr og safnast upp í firði sem hann synti inn í sjálfur eða hvort honum sé t.d. varpað kerfisbundið úr verksmiðju þangað sem hann var fluttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×