Innlent

Frumvarp um Happdrættisstofu vegur að friðhelgi einkalífs

Erla Hlynsdóttir skrifar
Frumvarp innanríkisráðherra um Happdrættisstofu vegur að viðskiptafrelsi og friðhelgi einkalífsins. Þetta er mat alþjóðlegrar stofnunar um tjáningar- og upplýsingafrelsi. Þá telur þingmaður frumvarpið geta takmarkað starfsemi hlutabréfasjóða á netinu, og jafnvel netleikja með sitt eigið hagkerfi.

Frumvarp Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, felur í sér innleiðingu á auknu eftirliti með happadrættum, auknar forvarnir, og takmörkun á aðgengi að fjárhættuspilum á netinu.

Í umsögn IMMI, alþjóðlegrar stofnunar um tjáningar- og upplýsingafrelsi, um frumvarpið, segir að til að koma í veg fyrir að fólk spili fjárhættuspil á netinu þurfi að fylgjast með netnotkun, og þar með ritskoða hana. Bent er á að slík tíðkist jú í sumum löndum, til að mynda Saudi Arabíu, Sýrlandi og Afganistan.

Birgitta Jónsdóttir þingmaður sem hefur sérhæft sig í netfrelsi hefur miklar efasemdir um frumvarpið, meðal annars því það komi í veg fyrir dulkóðun upplýsinga.

„Það er gríðarlega mikilvægt að þú getir hulið slóð þína af mörgum ástæðum. Það þarf ekki endilega að vera því þú hafir eitthvað að fela heldur vilt þú ekki endilega senda póstkort í hvert skipti sem þú ert í samskiptum við vini þína, vandamenn eða viðskiptamenn," segir Birgitta.

Þá segir í umsögn IMMI að frumvarpið sé með öllu vanhugsað og sé ólíklegt til að leysa nokkurn vanda. Þá veki það upp spurningar um atriði sem snúi að tjáningarfrelsi, viðskiptafrelsi, friðhelgi einkalífsins og öðrum grundvallarmannréttindum.

„Við þurfum líka að spá í það hvernig við skilgreinum það sem á að fyrirbyggja hjá Happadrættisstofu. þar gætu fallið undir til dæmis PartyPoker, PiratePuzzle, hlutabréfaviðskipti, peningamarkaðssjóðir. Á gráa svæðinu gæti verið til dæmis Eve online," segir Birgitta.

Umsögn IMMI má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×