Lífið

Hvernig tryggirðu að þú náir markmiðum þínum?

Helga Jóhanna Oddsdóttir, eigandi CarpeDiem markþjálfunar og ráðgjafar, veitir hér einföld og góð ráð sem krefjast þess að skoðaðar séu ýmsar hliðar.
Helga Jóhanna Oddsdóttir, eigandi CarpeDiem markþjálfunar og ráðgjafar, veitir hér einföld og góð ráð sem krefjast þess að skoðaðar séu ýmsar hliðar.
Flest höfum við á einhverjum tímapunkti sett okkur markmið um þann árangur sem við viljum ná.

Flest höfum við líka upplifað það að ná ekki markmiðum okkar, við annað hvort hættum að vinna að þeim, gefumst upp eða hættum að trúa því að þau skipti okkur máli.

Allt of margir falla í þá gryfju að láta utanaðkomandi aðstæður stýra því hver árangurinn er. Þar vantar skuldbindingu og skýra sýn á okkar eigin framlag.

Þekktu markmiðið þitt. Hvað þýðir það nákvæmlega og hvenær ertu búinn að ná því?

Skráðu hjá þér markmiðið. Hafðu það skýrt og mælanlegt. Markmið sem segir „ég ætla að fá stöðuhækkun á árinu" eða „ég ætla að lifa betra lífi" segir ekki nema hálfa söguna. Hvað þýðir betra líf fyrir þig? Þú verður að vita hvert þú vilt stefna.

Athugaðu hvað liggur að baki markmiðinu. Hvers vegna seturðu þér einmitt þetta markmið? Er eitthvað annað sem er mikilvægara fyrir þig?



Hvað þarftu að gera nákvæmlega til að ná markmiðinu?

Þegar þú ert viss um að þetta sé það sem þú vilt ná, ákveddu þá hvenær þú vilt vera búinn að ná markmiðinu, hafðu skýra sýn á það og mælanlegan árangur. Hérna skora ég á þig að leyfa þér að fara á flug. Sjáðu þig t.d. fyrir þér í draumastöðunni eftir sex mánuði eða eitt ár. Hvar ertu? Hverju hefurðu áorkað? Hvernig fórstu að því? Skráðu þetta hjá þér og þá ertu kominn með aðgerðaplan eða leiðarvísi að þeim árangri sem þig dreymir um. Markmið án aðgerðaplans er bara góð hugmynd.

Ekki bíða eftir breytingunum



Trúðu því að þú hafir alla hæfileika til að ná markmiði þínu. Stígðu svo skrefið til baka til dagsins í dag og leyfðu þér að upplifa alla þá hæfileika sem þú býrð yfir til að ná þessari sýn. Trúðu því að þú hafir það sem til þarf til að gera breytingar.

Ekki bíða eftir að breytingarnar eigi sér stað, taktu stjórnina. Skref fyrir skref í átt að markmiðinu er eina leiðin til að ná því. Fagnaðu hverju litlu skrefi sem færir þig nær markmiðinu.



Hvað fær þig til að efast?



Þegar á móti blæs er gott að sjá sig fyrir sér í markmiðinu, þess vegna að hafa táknræna mynd í huganum, nú eða uppi á vegg. Þú hefur alla þá hæfileika og getu sem þarf til að ná markmiði þínu. Ef þú efast, skoðaðu hvað það er sem fær þig til að efast. Tilfinningin um árangur, sem leiddi til þess að markmiðið var sett í upphafi, er oft besti hvatinn. Rifjaðu hana upp á leiðinni og mundu að án skuldbindingar af þinni hálfu eru líkurnar á árangri litlar.



Fáðu markþjálfa til að aðstoða þig

Þar ertu kominn með bandamann sem hjálpar þér að koma auga á hindranirnar og yfirstíga þær auk þess sem hann heldur þér við efnið og hefur trú á þér alla leið.

„Ef þú veist ekki hvert þú stefnir, endarðu einhvers staðar annars staðar." (Yogi Berra)

http://www.carpediem.is/,

helga@carpediem.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.