Innlent

Forsetinn segir umræðu um nýja stjórnarskrá komna í öngstræti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umræðan um nýja stjórnarskrá er komin í öngstræti, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í nýársávarpi sínu, sem sjónvarpað var klukkan eitt í dag. Hann gerði loftslagsmál og stjórnskipunarmálið að aðalumræðuefni sínu. Oddvitar ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa sagt að stjórnarskrármálið væri mikilvægasta málið á nýju ári.

„Því er miður að nú um áramótin blasir við að umræðan um nýja stjórnarskrá er á ýmsan hátt komin í öngstræti. Í stað samstöðu um sáttmálann geisa djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hafa áréttað að margt sé óskýrt og flókið í tillögunum. Lítil sem engin umræða hefur orðið um hið nýja stjórnkerfi sem tillögurnar fela í sér, hvernig samspili Alþingis, ríkisstjórnar og forseta yrði háttað. Þó er ætlunin að leggja ríkisráðið niður. Þjóðhöfðinginn og ríkisstjórn hefðu þá engan vettvang til samráðs þegar þörfin væri brýn," sagði Ólafur Ragnar.

Ólafur Ragnar sagði að samkvæmt stjórnskipunarfrumvarpinu væri forystusveit sem þjóðin sýndi afgerandi traust í kosningum yrði þegar hún tæki sæti í ríkisstjórn svipt almennu málfrelsi á Alþingi. Einstaklingum yrði auðveldað að ná þingsetu í krafti fjölmiðlafrægðar; dregið umtalsvert úr áhrifum flokka og persónubundin barátta innan þeirra háð allt til kjördags. Þá væri hlutur landsbyggðar reyndar líka rýrður mjög.

Hér má lesa áramótaávarp Ólafs Ragnars í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×