Innlent

Kirkjan vill leiða söfnun fyrir Landspítalann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kirkjan vill vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landspítalanum í samráði við stjórnendur spítalans, sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands í nýárspredikun sinni í dag. Hún benti á að undanfarið hafi verið vegið að öryggi landsmanna í heilbrigðismálum, bæði hér í höfuðborginni og út um landið.

„Á eina háskólasjúkrahúsi landsins, þar sem einkunnarorðin eru umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun er tækjakostur það bágborinn og úr sér genginn að til vandræða er. Það er nauðsynlegt að finna leiðir til úrbóta því öll viljum við búa við öryggi á hvaða aldri sem við erum og hvar sem við búum. Landspítali er fyrir okkur öll sem búum í þessu landi. Þjóðkirkjan er líka fyrir okkur öll sem búum í þessu landi. Þess vegna vill Kirkjan taka þeirri áskorun að vera leiðandi í söfnun til tækjakaupa á Landspítalanum í samráði við stjórnendur spítalans. Samtakamáttur þjóðarinnar hefur einatt skilað miklum árangri," sagði Agnes.

Hún sagði að samkennd væri nauðsynleg í samfélaginu. „Hún minnir okkur á ábyrgð okkar gagnvart hvert öðru og á það að hver og einn einstaklingur getur haft áhrif," sagði hún.

Þegar Agnesi voru veitt verðlaun sem maður ársins í Kryddsíld Stöðvar 2 í gær, sagði hún frá því að hún væri að vega og meta hvort hún ætti að kynna þessa ákvörðun í nýársávarpinu.

„Ég vil að kirkjan gangi í takt við þjóðina og geri það sem er þjóðinni fyrir bestu. Þetta er þjóðkrikja. Ég hef fengið áskorun um það að kirkjan taki frumkvæði varðandi söfnun hér á landi um að safna fyrir tækjum á landspítalanum af því að þar eru tæki og tól sem ekki virka," sagði Agnes þá. Hún kynnti svo ákvörðunina formlega í nýárspredikun sinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×