Innlent

Gleraugun björguðu lífi Baldurs

Baldur Sigurðarson slapp þokkalega þrátt fyrir að hafa fengið flugeld úr skottertu á stærð við Yaris, eins og hann lýsti sjálfur í greininni.
Baldur Sigurðarson slapp þokkalega þrátt fyrir að hafa fengið flugeld úr skottertu á stærð við Yaris, eins og hann lýsti sjálfur í greininni.
„Ég hefði aldrei lifað það af," segir Baldur Sigurðarson sem slasaðist þó nokkuð þegar hann fékk skoteld í andlitið á gamlárskvöld. "Gleraugun björguðu lífi mínu."

Baldur telur tertuna hafa verið gallaða því hann hafi ekki náð að standa upp áður en hún skaut. "Þetta var svona terta á stærð við Yaris, sú allra stærsta frá björgunarsveitunum."

Hann segist hafa stillt skottertunni upp, kveikt á þræðinum og búist við að tertan myndi byrja að skjóta á hinu horninu. "Ég var varla risinn upp þegar hún skaut úr sama horni og kveikurinn var á. Hún var greinilega biluð." Hin skotin flugu ekki hátt og sprungu á jörðinni.

Spurður hvort hann sé mikið slasaður segir hann að það fari eftir því hvernig á það sé litið. Hann sé heppinn að vera á lífi. "Það er álíka afl í þessu og í haglabyssu og hún skaut mig á tveggja metra færi beint í hausinn," segir Baldur. Hann hafi fundið strax að hægra augað var ekki lagi. Hann hélt því fyrir augað svo börnin í kring sæju ekki hversu slasaður hann var.

Augnlæknir á Landspítalanum hefur sagt Baldri að hann muni sjá þrátt fyrir slysið. Baldur er hress og ánægður með að vera á lífi. "Þér að segja þá er ég í besta skapi lífs míns."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×