Innlent

Leiðtogaprófkjörið líklegasta niðurstaðan

Stígur Helgason skrifar
Sex hafa einkum verið orðuð við framboð í oddvitasætið hjá flokknum. Fjögur eru nú borgarfulltrúar; Gísli Marteinn Baldursson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra hafa þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, verið nefndir til sögunnar.
Sex hafa einkum verið orðuð við framboð í oddvitasætið hjá flokknum. Fjögur eru nú borgarfulltrúar; Gísli Marteinn Baldursson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra hafa þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, verið nefndir til sögunnar.
Stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, kemur saman á fundi í dag og mun þar móta tillögu sína að því hvernig velja skuli á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári.

Tillagan verður síðan borin upp á fulltrúaráðsfundi á fimmtudaginn í næstu viku.

Í stjórninni sitja 26 manns og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er mikill meirihluti þeirra hlynntur því að velja oddvita listans í svokölluðu leiðtogaprófkjöri, þar sem almennum flokksmönnum gæfist færi á að velja úr hópi þeirra sem gæfu kost á sér til að leiða listann. Sú leið hefur aldrei fyrr verið farin.

Óttarr Guðlaugsson, formaður stjórnarinnar, staðfestir að leiðtogaprófkjörsleiðin hafi verið mikið til umræðu án þess að nokkuð hafi þó verið ákveðið enn. „Manni heyrist nú á flestum að fólk vilji fara einhverjar nýjar leiðir, svo er bara spurning hvaða leið það er,“ segir Óttarr.

Hann segir marga hrifna af hugmyndinni um leiðtogaprófkjör. „Þannig væri fólki gefið tækifæri til að verða okkar borgarstjóraefni – menn byðu sig þá fram í leiðtogasætið en ekkert annað.“

Möguleikarnir í stöðunni eru fjórir: leiðtogaprófkjörið, almennt prófkjör, uppstilling og svokölluð röðun, þar sem fulltrúaráðið sjálft kýs inn á listann, fyrst í efsta sætið, síðan í annað sætið og koll af kolli.

Óttarr segir að meðal annars hafi komið til tals að halda fyrst leiðtogaprófkjör um efsta sætið en að velja afganginn af listanum með áðurnefndri röðun. Einnig kæmi þó til greina að halda einfaldlega annað prófkjör fyrir neðri sætin eða velja þá frambjóðendur með uppstillingu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru sumir stjórnarmenn mjög ósáttir við hugmyndir um leiðtogaprófkjör. Á meðal þeirra eru fulltrúar Heimdallar, ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, og Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna í Reykjavík.

„Lýðræðislegasta leiðin til að velja á lista er almennt prófkjör, að flokksmenn fái að velja sína frambjóðendur,“ segir Sigríður Hallgrímsdóttir, formaður Hvatar og aðstoðarkona Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra.

Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar, tekur í sama streng. „Við Heimdellingar teljum að það sé langfarsælast fyrir flokkinn að hafa almennt prófkjör,“ segir hann. Það þjóni meðal annars best hagsmunum ungs fólks sem kunni að vilja bjóða sig fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×