Innlent

Var margsaga um þýfið

Lögreglan hefur upplýst innbrot í bifreið sem framið var í iðnaðarhverfi í austurborginni um síðustu helgi, en tilkynnt var um málið á mánudag.

Jafnframt hefur tekist að endurheimta hina stolnu muni og koma þeim aftur í réttar hendur. Um er að ræða fjölmörg verkfæri og skiptir verðmæti þeirra hundruðum þúsunda.

Karl á þrítugsaldri, sem hefur ítrekað komist í kast við lögin, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar, en hluti af þýfinu fannst í bifreið mannsins.

Sá var margsaga um þýfið, en skýringar hans þóttu lítt trúverðugar.

Ekki bætti það stöðu kauða að enn fleiri munir úr innbrotinu fundust þegar leitað var á heimili hans í framhaldinu.

Afgangurinn af þýfinu kom svo í leitirnar eftir ábendingu frá árvökulum borgara, en því hafði verið komið fyrir annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og gefur að skilja var hinn réttmæti eigandi verkfæranna afar glaður þegar hann fékk þau aftur í sínar hendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×