Innlent

HÍ lagt að velli og Washington handan við hornið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vinstri: Guðmundur Sigurðsson (deildastjóri lagadeildar), Aldís Geirdal, Claudie Ashonie Wilson, Anna Björg Guðjónsdóttir, Guðrún Lilja Sigurðardóttir og Þórdís Ingadóttir.
Frá vinstri: Guðmundur Sigurðsson (deildastjóri lagadeildar), Aldís Geirdal, Claudie Ashonie Wilson, Anna Björg Guðjónsdóttir, Guðrún Lilja Sigurðardóttir og Þórdís Ingadóttir.
Fjórir fræknir laganemar úr Háskólanum í Reykjavík halda vestur um haf í lok mánaðarins. Þar fer fram stærsta málflutningskeppni í heiminum með þátttakendur frá yfir 500 lagadeildum í rúmlega 80 löndum.

Keppnin, Philip C. Jessup International Law Mood Court Competition, hefur farið fram árlega frá 1960 en Íslendingar áttu fyrst fulltrúa í keppninni árið 2000. Anna Björg Guðjónsdóttir, Aldís Geirdal Sverrisdótir, Guðrún Lilja Sigurðardóttir og Claudie Ashonie Wilson skipuðu lið HR sem lagði málflutningslið Háskóla Íslands að velli í forkeppni síðastliðinn föstudag.

„Þetta er í annað skiptið sem lið frá HR tekur þátt í aðalkeppninni," segir Anna Björg sem var stigahæsti málflytjandinn í keppninni við HÍ. HR hefur skráð sig til leiks þrisvar sinnum og árangurinn því flottur enda lagadeild háskólans enn á barnsaldri.

Anna Björg segir gríðarlega mikla vinnu liggja að baki málflutningskeppni sem þessari. Málsflutningsmenn þurfa bæði að geta varið og stefnt í tilbúna málinu sem fjallar um tvö lönd sem eiga í milliríkjadeilu fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag.

„Tíminn frá september til janúar fer í að skrifa greinagerðir fyrir hvort land fyrir sig. Eftir það þarf að semja ræður og undirbúa munnlegan málflutning. Hver ræðumaður talar í rúmlega 20 mínútur og gert er ráð fyrir því að dómarar spyrji þáttakendur talsvert á meðan á ræðutíma stendur. Þar með er nauðsynlegt að kunna málið vel og standa fastur með sínum rökum," segir Anna Björg.

Liðið heldur utan 29. mars og mun dvelja í Washington í rúma viku.

„Keppnin hefst formlega sunndaginn 31. mars og fer fyrsta umferð fram dagana 1. til 3. apríl. Eftir þá lotu öðlast 32 lið þáttökurétt í útsláttarkeppni (byggt á stigagjöf) sem að lokum leiðir tvö hæfustu liðin saman í úrslitaumferð," segir Anna Björg sem lítur á keppnina sem frábært tækifæri fyrir þær stöllur.

„Við erum mjög spenntar og hlökkum mikið til. Við lítum á þetta líkt sem gott tækifæri til að kynnast krökkum sem eru í laganámi eins og við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×