Innlent

ESB-ályktun Sjálfstæðismanna vekur hörð viðbrögð

Sú ákvörðun landsfundar Sjálfstæðisflokksins að styðja tillögu um að aðildarviðræðum við ESB yrði hætt í stað þess að gert yrði hlé á þeim hefur vakið hörð viðbrögð meðal þeirra sjálfstæðismanna sem vilja klára aðildarviðræður við sambandið.

Í upphaflegum drögum stóð að gert yrði hlé á viðræðum og þær ekki hafnar að nýju fyrr en að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, en það var speglun frá ályktun síðasta landsfundar flokksins. Breytingartillaga um að viðræðum yrði hætt var samþykkt.

Margir sjálfstæðismenn sem hafa lýst yfir áhuga á að klára viðræðurnar gagnrýndu þetta harðlega í gærkvöldi. Meðal þeirra voru Ólafur Arnarson og Sveinn Andri Sveinsson sem lýsti því yfir að hann myndi sitja heima í næstu kosningum.

„Ég ætla að sitja heima í næstu kosningum. Ótrúleg þvæla í landsfundarályktun um Evrópumál og alger yfirgangur harðlínu-hagsmunaafla gerir manni ómögulegt að kjósa flokkinn,“ skrifaði Sveinn Andri um ákvörðun landsfundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×