David Beckham klessti á bíl fyrir utan heimili sitt í Beverly Hills á föstudag. Þetta kemur fram á bresku fréttasíðunni The Daily Mail.
Samkvæmt síðunni var fótboltastjarnan í svörtum Range Rover Sport ásamt dreng sem leit út fyrir að vera sonur hans, Brooklyn. Hann er fjórtán ára gamall. Feðgarnir meiddust ekki í árekstinum.
Atvikið átti sér stað klukkan hálf þrjú á föstudaginn síðasta. Vitni sögðust hafa séð Beckham, þar sem hann bakkaði út úr innkeyrslunni við hús sitt, bakka á bíl sem óþekkt kona keyrði. Hann keyrði aftur inn í innkeyrsluna eftir áreksturinn og beið þar eftir lögreglu. Eftir að lögregla hafði yfirheyrt hann vegna atviksins ræddi hún við vitni.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Beckham og sonur hans Brooklyn lenda í árekstri saman. Árið 2011 lentu þeir í margra bíla árekstri á hraðbraut í Los Angeles.
Nánar er fjallað um málið á Daily Mail þar sem sjá má myndir af skemmdum bílunum.
