Innlent

"Við munum gera betur“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Við tökum þessum skilaboðum og munum auðvitað gera betur.“ Þetta segir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en flokkurinn hefur tapað um tíu prósenta fylgi á síðasta ári. Hann segir fylgistapið ekki áfellisdóm yfir sér.

Samkvæmt nýrri könnun Gallup sem gerð var fyrir RÚV dagana fimmtánda ágúst til fjórtánda september mælist Sjálfstæðisflokkurinn með ríflega þrjátíu prósent fylgi í Reykjavíkurborg. Flokkurinn var með þrjátíu og fjögur prósenta fylgi í síðustu kosningum.

Sjálfstæðismenn í borginni hafa tapað um tíu prósenta fylgi til Besta flokksins, sé mið tekið af könnun Gallup á síðasta ári og er hann nú stærsti flokkurinn með 35 prósenta fylgi.

„Við töku þessum skilaboðum og munum auðvitað gera betur,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Sp. blm. Er þetta áfellisdómur yfir þér sem oddvita?

„Það er stutt síðan ég tók við sem oddviti í Reykjavík en nú eru prófkjör í nóvember og ég hef gefið kost á mér í oddvitasæti.“

Bent hefur verið á að kjósendur í Reykjavík eigi erfitt með að greina á milli stefnumálum og áherslum flokkanna. Júlíus Vífill segir það vel mega vera. Á kosningavetri sé hins vegar von á uppgjöri, þar sem línurnar skýrast.

„Ég held að stefna Sjálfstæðisflokksins sé mjög ólík stefnu núverandi meirihluta. Við viljum lækka skatta, við viljum bæta grunnþjónustuna og endurskoða aðalskipulag sem gerir ráð fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur fari.“

Aðalskipulagið er mál málanna um þessar mundir. Þrír borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði með skipulaginu í byrjun júni, þau Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Áslaug Friðriksdóttir. Júlíus Vífill segir enga óeiningu ríkja í flokknum.

„Fólk á auðvitað rétt á því að hafa sínar skoðanir og að fylgja sinni sannfæringu,“ segir Júlíus. „Stefna Sjálfstæðisflokksins er skýr í landsfundarsamþykktum og sömuleiðis er stefna ríkisstjórnarinnar skýr. Þetta er eins og með mörg önnur mál: innan flokka eru ólík sjónarmið og það sama á við flugvöllinn innan allra flokka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×