Innlent

Seldu æðardún fyrir 508 milljónir

Æðarfugl hefur verið alfriðaður hérlendis síðan árið 1847.
Æðarfugl hefur verið alfriðaður hérlendis síðan árið 1847. Fréttablaðið/Anton Brink
Verðmætaaukning íslensk æðardúns milli áranna 2011 og 2012 nemur 35,5% en árið 2012 var æðardúnn seldur fyrir tæplega 508 milljónir. Er það í fyrsta sinn sem útflutningsverðmæti hans nemur meira en hálfum milljarði króna.

Þessi mikla eftirspurn hefur farið langt með að tæma birgðir útflutningsaðila og af því er ljóst að skortur verður á æðardúni fram á haust.

Guðrún Gauksdóttir, formaður Æðarræktarfélags Íslands, segir að takmarkað magn æðardúns auki verðgildi hans og bendir á að íslenskur æðardúnn hafi yfir 90% markaðshlutdeild í heiminum. Hins vegar sé um takmarkaða náttúruafurð að ræða og því séu miklar sveiflur í framboði og verði.

„Það eru jú blessaðar kollurnar okkar sem ráða þessu," segir Guðrún. Hún segir að mest af dúninum sé flutt út til Japans og Þýskalands auk þess sem innanlandsmarkaðurinn sé alltaf að styrkjast.

Þessi mikla eftirspurn hefur skilað sér í hærra verði til bænda sem fá að meðaltali 176 þúsund krónur fyrir hvert kíló af dúni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×