Innlent

Sakar Guðlaug Þór um að ljúga upp á gesti Alþingis

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.
„Er engin leið til þess að verja gesti Alþingis fyrir haugalygi þingmanna," spurði Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, þar sem hann gagnrýndi Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins harkalega á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.

Björn Valur gerði að umtalsefni fréttir vefmiðla, svo sem Eyjunnar, sem birtust í gær en þar var haft eftir Guðlaugi Þór, um að fram hefði komið í máli sérfræðinga á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í vikunni, að skattsvik og skattaundanskot hefðu stóraukist á liðnum árum og að þeirra tilfinning væri sú, að skattarnir væru orðnir svo háir að það væri orðið réttlætanlegt að borga þá ekki.

„Mér fannst þetta athyglisvert og setti mig í samband við nefndarmenn en enginn kannaðist við ummælin," sagði Björn Valur í morgun og bætti við að hann hefði því næst sett sig í samband við gesti nefndarinnar. „Og þar kannaðist heldur enginn við ummælin," sagði Björn Valur og benti jafnframt á að gestir nefndarinnar hefðu verið fulltrúar ASÍ, Samtaka atvinnulífsins, fjármálaráðuneytisins og ríkisskattstjóra.

„Það væri nú fréttnæmt ef ríkisskattstjóri liti svo á að það væri í lagi að greiða ekki skatta," sagði Björn Valur og spurði svo hvort það væri ekki hægt að verja gesti þingsins fyrir meintri lygi þingmanna.

Illugi Gunnarsson, flokksbróðir Guðlaugs Þórs kom svo upp í púlt og sagði að Guðlaugur Þór hefði benti á að skattsvik hefðu stóraukist og að skattakerfið hér á landi væri orðið of flókið. Um það væri ekki deilt að hans mati.

Hér má svo nálgast ræðu Guðlaugs Þórs á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×