Innlent

Forsætisráðherra bregðist við íhlutun forsetans

Gar skrifar
Forseti Íslands sagðist í ríkisráði hafa hvatt „til samstöðu allra flokka“ í stjórnarskrármálinu.
Forseti Íslands sagðist í ríkisráði hafa hvatt „til samstöðu allra flokka“ í stjórnarskrármálinu.
Ríkisútvarpið sagði í gærkvöld að til fordæmalausra orðaskipta hefði komið á ríkisráðsfundi á gamlársdag eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti lagði þar fram bókun um stjórnarskrármálið.

Fullyrti RÚV að engar heimildir væru um að áður hafi komið til orðaskipta í ríkisráði. Í tillögum um breytta stjórnarskrá væri lagt til að ríkisráð yrði lagt niður. Bent var á að forsetinn hefði sagt í ávarpi á nýársdag að þá hyrfi vettvangur fyrir samráð þjóðhöfðingja og ríkisstjórnar.

„Ég var ekki óánægður með það sem þar kom fram og fannst þar margt af skýrleika mælt. Á þessum fundi fór ekkert óeðlilegt fram sem ekki var fullkomlega í samræmi við leikreglur lýðræðisins,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra spurður hvort þeir sem sátu ríkisráðsfundinn hafi verið óánægðir með það sem þar gerðist.

„Ég tel að fundargerðir ríkisráðs eigi ekki að vera leyndarmál. Sú stofnun er þess eðlis, og sömuleiðis það sem þar fer fram, að það er engin þörf á því að hafa ekki fullkominn tærleika yfir fundargerðum hennar,“ bætir Össur við.

Hvorki náðist í Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra né Steingrím J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra í gærkvöld til að fá þeirra sjónarmið. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir í grein í Fréttablaðinu í dag að „íhlutun“ forsetans á ríkisráðsfundinum hafi verið „formbundin stjórnskipuleg athöfn en ekki orðagjálfur í ræðu“. Ríkisráðið sé réttur vettvangur fyrir forsetann í þessum efnum.

„Rétt er að gera þá kröfu til forsætisráðherra að hann bregðist við íhlutun forsetans með málefnalegum sjónarmiðum í ríkisráðinu,“ skrifar Þorsteinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×