Innlent

Bílstjórinn yfirbugaði farþegann

Jón Oddur er búinn að kæra farþegann fyrir líkamsárás.
Jón Oddur er búinn að kæra farþegann fyrir líkamsárás. Mynd/Vísir og úr einkasafni
„Samskipti okkar fram að þessu voru búin að vera mjög fín, þetta var bara eins og þruma úr heiðskýru lofti," segir leigubílstjórinn Jón Oddur Hammer Kristinsson, sem varð fyrir árás farþega í nótt.

Á Vísi í morgun var sagt frá því að farþegi hefði ráðist á leigubílstjóra eftir að hann neitaði á borga. Þær upplýsingar voru komnar frá lögreglunni. Jón Oddur segir það hinsvegar ekki vera rétt.

„Ég var að keyra Reykjanesbrautina til suðurs þegar hann tekur beltið af sér og segist ætla að ráðast á mig. Svo veit ég ekki fyrr en hann er búinn að slá frá sér nokkrum sinnum. Ég næ að yfirbuga hann og kalla á aðstoð,“ segir Jón Oddur í samtali við fréttastofu.

„Þegar hann heyrir að lögreglan sé á leiðinni hleypur hann út úr bílnum en ég elti hann,“ segir hann. Lögreglan mætti svo á staðinn nokkrum mínútum síðar og handtók manninn, sem gisti í fangaklefa í nótt.

 

Jón Oddur er ekki í fullu starfi sem leigubílstjóri en segist þurfa að vera frá vinnu næstu daga. „Ég er í gifsi og líklega er liðbandið í þumalfingrinum farið, ég fer í frekari skoðun á mánudaginn.“

Hann hefur keyrt leigubíl annað slagið frá árinu 2007 en hefur aldrei lent í svona áður.

Jón Oddur segist hafa kært farþegann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×