Innlent

"Þetta er stolt okkar Íslendinga"

Ingveldur Geirsson skrifar
Þjóðgarðsvörður á Þingvöllum segir að Ísland hafi ekki verið undirbúið undir komu þeirra ferðamanna sem hingað streyma. Hann segir það til skammar að það fyrsta sem mæti ferðamönnum á Þingvöllum sé bílaþvaga og útsparkað land.

Frá áramótum hafa um 168 þúsund erlendir ferðamenn heimsótt landið eða um 42 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra.  Langflestir þeirra heimsækja þjóðgarðinn á Þingvöllum og þar er landið farið að láta á sjá vegna átroðnings.

Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, segir margt þurfi að bæta. Á Hakinu  þurfi að stækka bílastæðið sem taki ekki við nema broti af þeim bílum og rútum sem stoppi þar á degi hverjum og tengja útsýnispall á barmi Almannagjár við göngubrautina niður í gjána. Alvarlegast er þó kannski það tjón sem hefur myndast á jarðveginum víða um þjóðgarðinn vegna átroðnings ferðamanna.

„Þeir fylgja merktum slóðum þar sem þeir eru, en hinsvegar er ofaníburður þannig að fólk flæmist út af brautunum og fer að ganga á grasinu þannig að við þurfum að setja hér nýtt lag og afmarka göngubrautirnar miklu betur," segir Ólafur Örn.

Jarðvegurinn er sérstaklega viðkvæmur á þessum árstíma,  grassvörðurinn tætist upp ef mikið er gengið á honum og á skömmum tíma veðst allt út.

„Þetta er stolt okkar Íslendinga, staður sem við eigum saman og okkur finnst vænt um, þetta er oft á tíðum fyrsti staður sem útlendingar koma á, koma hér með miklar væntingar, stíga hér út á íslenska jörð má segja íf yrsta skipti og hvað er það sem mætir þeim; bílaþvaga og útsparkað land."

Ólafur segir Ísland ekki hafa verið búið undir þennan mikla ferðamannafjölda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×