Innlent

Fjórar konur ákærðar fyrir að afklæða konu og raka af henni hárið

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákærur gegn fjórum konum á þrítugsaldrinum fyrir hrottafengna líkamsárás í Mosfellsbæ í janúar á síðasta ári. Konunum er gefið að sök að hafa ráðist á unga konu á heimili hennar, þar sem hún var sofandi.

Þar eiga þær að hafa slegið hana ítrekað í andlitið og rakað af henni mest allt hárið með rafmagnsrakvél sem ein kvennanna hafði meðferðis. Á sama tíma héldu tvær konur fórnarlambisínu föstu niðri og slógu hana í andlitið samkvæmt ákæruskjali.

Eftir árásina eiga þær svo að hafa neytt konuna úr fötunum með því að hóta henni frekara ofbeldi. Ein þeirra á svo að hafa klætt fórnarlambið úr öllum fötunum nema brjóstahaldara.

Við þetta hlaut fórnarlambið glóðarauga á hægra auga og eymsli þar í kring, mar yfir gagnauganu vinstra megin, yfirborðsáverka í andliti og á baki auk þess sem kvarnaðist upp úr tönn og nánast allt hárið var rakað af henni.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Konurnar sem um ræðir eru á aldrinum 20 ára til 27 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×