Lífið

Ætlað að verða bakhjarl úrræða fyrir börn alkóhólista

Freyr Bjarnason skrifar
Hljómsveitin Pollapönk kemur fram á barnahátíð SÁÁ í dag.
Hljómsveitin Pollapönk kemur fram á barnahátíð SÁÁ í dag.
Barnahjálp SÁÁ verður stofnuð í dag. Henni er ætlað að verða bakhjarl úrræða fyrir börn alkóhólista.

„Börn alkóhólista eru ótrúlega mörg. Það er talið að það séu sex þúsund börn sem þjást vegna áfengis- og vímuefnafíknar foreldra sinna í dag á Íslandi,“ segir leikarinn Rúnar Freyr Gíslason.

SÁÁ hefur boðið upp á sálfræðiviðtöl fyrir börn áfengis- og vímuefnasjúklinga síðustu fimm ár og hafa um 600 börn átta til átján ára nýtt sér þessa þjónustu. SÁÁ leitar nú til almennings um stuðning til að geta haldið þessari þjónustu úti.

„Þrír sálfræðingar hafa verið að sinna þessu og þeir anna ekki eftirspurn,“ segir Rúnar Freyr. „Barnahjálpin er upphafið í sókn á þessu sviði.“

Í tilefni af stofnun Barnahjálpar SÁÁ verður haldin barnahátíð SÁÁ í dag klukkan 15 í Efstaleiti 7 þar sem Pollapönk, Mikki refur, Lilli klifurmús og íþróttaálfurinn koma fram. Í kvöld verður uppistand í Gamla bíói þar sem landslið grínista stígur á svið. Miðaverð er 1.500 krónur og rennur óskert til Barnahjálparinnar.

Fjölskyldum í landinu verður einnig boðið að gerast stuðningsforeldrar Barnahjálpar SÁÁ, auk þess sem hin árlega álfasala er í fullum gangi. „Við hvetjum alla til að taka sölufólkinu vel því málefnið er brýnt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.