Eftir magnaðan eins marks sigur íslenska karlalandsliðsins í handknattleik á Frökkum í A-riðli handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í gær er ljóst að efsta sæti riðilsins er Íslendinga.
Strákarnir okkar eiga enn eftir að mæta Bretum í lokaleik sínum í riðlinum. Jafnvel þótt íslensku strákarnir töpuðu þeim leik, sem ekki einu sinni svartsýnustu menn telja mögulegt, yrðu þeir áfram í efsta sæti riðilsins.
Ísland mætir annaðhvort Serbum eða Ungverjum í átta liða úrslitum á miðvikudag en nánari útlistanir á því hvers vegna svo er má lesa um hér að neðan.
Íslenska liðið hefur átta stig en sigurvegarinn úr viðureign Frakka og Svía á morgun nær liðinu að stigum. Báðar þjóðir hafa mun betri markatölu en íslenska liðið en það kemur ekki að sök.
Íslenska liðið vann sigur í viðureignum sínum gegn báðum þjóðum og stendur því betur að vígi í innbyrðisviðureignum sínum.
Efsta sætið í A-riðli mætir liðinu sem hafnar í fjórða sæti í B-riðli í átta liða úrslitum. Ljóst er að Króatía, Spánn og Danmörk hafna í þremur efstu sætum B-riðils auk þess sem Suður-Kórea hafnar í neðsta sæti óháð úrslitum morgundagsins.
Því geta Íslendingar aðeins mætt Ungverjum eða Serbum í átta liða úrslitum á miðvikudag. Bæði lið hafa tvö stig sem stendur og mætast í hreinum úrslitaleik um 4. sætið í B-riðli á morgun, mánudag. Jafntefli dugar Ungverjum sem hafa betri markatölu en Serbarnir.
Sigurvegarinn úr viðureign Íslendinga gegn Serbum/Ungverjum í átta liða úrslitum mætir sigurvegaranum úr viðureign liðsins sem hafnar í 3. sæti í A-riðli (riðli Íslands) og 2. sæti í B-riðli í undanúrslitum.
Leikur Ungverja og Serba fer fram klukkan 8:30 í fyrramálið svo handboltaunnendur ættu að geta kynnt sér mótherja Íslendinga vel. Leikur Íslendinga og Breta hefst svo klukkan 15.15.
Efsta sætið tryggt | Ísland mætir Serbum eða Ungverjum

Tengdar fréttir

Íslendingar í skýjunum á Facebook og Twitter
Íslendingar hafa heldur betur látið gleði sína í ljós á samskiptamiðlunum Facebook og Twitter eftir að Íslendingar unnu Frakka í hörkuspennandi leik á Ólympíuleikunum í kvöld. Ísland marði sigur 30 - 29 en með sigrinum er ljóst að Íslendingar unnu A-riðil á leikunum. Glæsileg frammistaða.

Leik lokið: Ísland - Frakkland 30-29 | Stórkostlegur íslenskur sigur
Ísland vann í kvöld stórkostlegan eins marks sigur, 30-29 á Ólympíumeisturum Frakka. Íslenska liðið spilaði frábærlega í leiknum, bæði í vörn og sókn og vann að lokum verðskuldað eftir taugatrekkjandi lokamínútur. Ísland mun því enda í efsta sæti riðilsins og er komið í átta liða úrslit keppninnar.