Fæðingartíðnin í Danmörku þessa dagana er sú lægsta undanfarin aldarfjórðung. Á móti hefur fjöldi innflytjenda aldrei verið meiri.
Í nýjum tölum frá hagstofu Danmerkur kemur fram að á fjórða ársfjórðungi síðasta árs fæddust 13.800 börn í landinu en þessi fjöldi hefur ekki verið minni á einum ársfjórðungi síðan árið 1988. Þar að auki fækkaði fæðingum um 9% miðað við sama ársfjórðung árið áður.
Í umfjöllun Berlingske Tidende um málið kemur fram að ástæðu þessa megi rekja til þess að árin 1979 og fram til 1988 var fæðingatíðnin í Danmörku óvenjulág en á þessu tímabili fæddust aðeins 60.000 börn að meðaltali á ári. Þessi fámenna kynslóð gefur síðan af sér færri börn núna.
Á móti kemur að rétt tæpir 70.000 nýir innflytjendur voru skráðir í Danmörku á síðasta ári sem var met og ríflega 1.000 einstaklingum fleira en á árinu á undan. Mikill meirihluti innflytjendanna kom frá vestrænum ríkjum.
Fram kemur að ríflega 60.000 Tyrkir, eða fólk af tyrkneskum uppruna, eru nú búsettir í Danmörku en fjöldinn samvarar 1,1 prósenti af heildaríbúafjölda landsins.

