Erlent

Aukinn hagvöxtur í forgangi í Evrópu

Leiðtogarnir leggja áherslu á aukinn hagvöxt innan evrusvæðisins til að takast á við kreppuna.
Leiðtogarnir leggja áherslu á aukinn hagvöxt innan evrusvæðisins til að takast á við kreppuna. Fréttablaðið/ap
Aukinn hagvöxtur á evrusvæðinu er algjört forgangsmál til að komast út úr kreppunni. Þetta sögðu Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, á blaðamannafundi í Berlín í gær.

Merkel hefur hingað til lagt mikla áherslu á aðhaldsaðgerðir þeirra ríkja sem eiga í mestum skuldavanda. Hún sagði hins vegar í gær að þó aðhaldsaðgerðir séu ein meginstoðin sem framtíð Evrópu hvíli á þá þurfi aðra stoð. Sú stoð sé hagvöxtur og atvinna. Þá lagði hún áherslu á að gengið yrði frá öðrum samningi um skuldir Grikkja á næstunni.

Unnið er að því að klára vinnu við fjármálasáttmála sem leiðtogar allra ríkjanna nema Bretlands samþykktu í desember síðastliðnum. Búist er við því að mögulega verði hægt að skrifa undir sáttmálann í lok mánaðarins, en í síðasta lagi í byrjun mars. Þá er verið að skoða hvort hægt sé að koma björgunarsjóði evruríkjanna í gagnið í júlí, ári fyrr en áætlað var.

Merkel mun svo funda með Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í kvöld. Nýr forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti, er svo væntanlegur til Berlínar á morgun í sína fyrstu heimsókn. Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna munu funda á Ítalíu í lok mánaðarins. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×