Erlent

Romney sigraði Santorum með 8 atkvæðum

Mitt Romney og Rick Santorum urðu efstir og hnífjafnir í prófkjöri Repúblikanaflokksins í Iowa með 25% atkvæða hvor. Í frétt CNN fyrir nokkrum mínútum segir að samkvæmt endanlegum tölum hafi Romney náð að sigra með átta atkvæðum. Í þriðja sæti kom svo Ron Paul með 22% atkvæða.

Óhætt er að segja að Rick Santorum fyrrum öldungadeildarþingmaður frá Pennsylvaníu sé sigurvegari prófkjörsins í Iowa. Hann var tiltölulega óþekktur utan Bandaríkjanna þar til í nótt en er nú heimsþekktur.

Santorum, sem er lögfræðingur að mennt er þekktur fyrir íhaldssamar skoðanir sínar í bæði fjár- og samfélagsmálum. Hann sagði í nótt að ef hann næði kjöri sem forseti Bandaríkjanna myndi hann skera niður útgjöld hins opinbera um 5 trilljónir dollara en jafnframt verja hagsmuni þeirra fátæku og verst settu í Bandaríkjunum.

Úrslitin eru niðurlag fyrir Mitt Romney þrátt fyrir nauman sigur en hann eyddi miklum fjárhæðum til að ná árangri í prófkjörinu.

Aðrir frambjóðendur, fyrir utan Ron Paul sem náði þriðja sætinu eru að íhuga stöðu sína. Þegar berast fréttir úr herbúðum Rick Perry og Michele Bachmann um að þau ætli að draga sig út úr baráttunni um að verða forsetaefni flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×