Erlent

Stúlka sætti pyntingum mánuðum saman

Sahar Gul, 15 ára afgönsk stúlka sem bjargað var frá eiginmanni sínum eftir hálfs árs innilokun og pyntingar.
Sahar Gul, 15 ára afgönsk stúlka sem bjargað var frá eiginmanni sínum eftir hálfs árs innilokun og pyntingar. Nordicphotos/AFP
Í kjölfar máls þar sem 15 ára stúlka sætti pyntingum mánuðum saman af hálfu eiginmanns síns og fjölskyldu hans hefur Hamid Karzai, forseti Afganistan, lofað aðgerðum gegn „aumingjahætti“ þeirra sem beita konur ofbeldi.

Forsetinn lét ummælin falla eftir heimsókn sendinefndar afganskra kvennasamtaka sem hafa látið sig mál stúlkunnar varða.

Stúlkan, sem heitir Sahar Gul, var brennd og barin og rifnar neglur af fingrum hennar, eftir að hún setti sig upp á móti því að selja sig til að afla eiginmanni sínu fjár.

Stúlkunni var bjargað í síðasta mánuði úr kjallara heimilis eiginmanns hennar þar sem hún hafði verið læst inni á klósetti í sex mánuði.

Tengdaforeldrar stúlkunnar og mágkona voru handtekin á staðnum, en eiginmaðurinn er eftirlýstur.

Mál Sahar Gul hefur vakið nokkra athygli í landinu og kröfur um að banna hjónaband manna og barnungra stúlkna hafa aukist. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum mega stúlkur ganga í hjónaband 16 ára í landinu, en talið er að helmingur allra stúlkna sem píndar eru í hjónaband séu undir 15 ára aldri. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×