Skoðun

Hjónanámskeið í 15 ár

Á þessu vori eru liðin 15 ár síðan fyrst voru haldin námskeið fyrir pör og sambúðarfólk undir heitinu „Jákvætt námskeið um hjónaband og sambúð“. Fyrsta námskeiðið var haldið árið 1996 í Hafnarfjarðarkirkju. Þá var ætlunin að bjóða upp á tvö námskeið, eitt um haust og eitt að vori, og láta það duga. Viðbrögðin voru aftur á móti strax í upphafi mjög sterk og áhuginn á slíkum námskeiðum mikill. Þetta var tilboð sem greinilega vantaði inn í íslenskt samfélag á þessum tíma.

Síðan eru sem sagt liðin 15 ár í einni sjónhendingu og námskeiðin eru orðin óteljandi. Þau hafa verið með ýmsu sniði. Í gegnum árin hefur verið boðið upp á þau reglulega í Hafnarfjarðarkirkju en auk þess hafa námskeiðin verið haldin um allt land og margoft á sumum stöðum, eins og til dæmis á Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og í Reykjavík. Þá hafa þau verið haldin í samvinnu við heimamenn á hverjum stað, foreldrafélög skóla, hin ýmsu félagasamtök, starfsmannafélög og þannig mætti lengi telja. Námskeiðin hafa einnig verið haldin í Ósló, Stokkhólmi og Gautaborg. Fjöldinn sem hefur sótt þessi námskeið frá upphafi er í kringum 6.000 pör.

Ef leitað er skýringa á vinsældum námskeiðanna er helst til að taka að þau eru byggð þannig upp að hvert og eitt par getur á námskeiðunum mótað efnið og umfjöllunina að sínu höfði. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi – en verða um leið að horfast í augu við sjálfa sig og sitt líf. Námskeiðin eru umfram allt lausnarmiðuð og mörg pör sækja námskeiðin til að efla og styrkja það sem gott er. Og heimaverkefnin hafa nýst mörgum vel til framtíðar.

Þó liðin séu 15 ár frá því að námskeiðin hófust og þó samfélagið hafi tekið algerum stakkaskiptum á þessum árum, þá er þörfin enn mikil fyrir námskeið af þessu tagi. Til að halda upp á tímamótin verður þess vegna boðið upp á hjónakvöld í Kaldalóni Hörpu þann 30. apríl næstkomandi. Þar verður reynsla áranna dregin saman og bent á nýjar leiðir fyrir pör til að styrkja samband sitt á nýjum tímum.




Skoðun

Sjá meira


×