Skoðun

Hverju er nauðsynlegt að fórna?

Inga Sigrún Atladóttir skrifar
Nú er fagnað á Suðurnesjum og færðar fréttir af því að álver í Helguvík verði brátt að veruleika. Í gleðinni virðast menn hafa misst sjónar á framtíðarhagsmunum og vera tilbúnir að kveðja Reykjanesskagann eins og fólk þekkir hann í dag.

Álverið mun skapa fjölda starfa, um það þarf ekki að deila. Það þarf atvinnu á Suðurnesjum, það þurfum við heldur ekki að deila um. En…atvinnuuppbygging sem fylgir álveri í Helguvík mun kosta 8-16 jarðhitavirkjanir á skaganum sem tengdar verða saman með tilheyrandi mannvirkjum. Jarðhitavirkjunum fylgja brennisteinsmengun, borstæði, hitaveiturör, vegir og lón með affallsvatni. Uppbyggingin mun einnig þurfa tvöfalda röð af 30 metra háum stálmöstrum eftir endilöngum Reykjanesskaganum ásamt tengivirkjum.

Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki alltaf hægt að fá ýtrustu kröfum sínum fullnægt og það hef ég aldrei látið mig dreyma um. En er þetta nauðsynlegur fórnarkostnaður? Geta virkjunarsinnar ekki sýnt framandi sjónarmiðum smá virðingu og hugsað sér að landið geti verið einhvers virði þó það sé ekki fullt af rörum og staurum?

Ég hef fyrst og fremst komið að þessu máli með því að reyna að fá Landsnet til að skoða hugmyndir um sæstreng eða jarðstreng út í Helguvík. Ég hef líka rætt um að fá raflínur færðar til svo svæði innan Sveitarfélagsins Voga sem er fyrir ofan Reykjanesbraut verði ekki óhæft til nýtingar. Kröfum um allt slíkt hefur verið mætt með fyrirlitningu á skoðunum sem bera minnsta einkenni náttúruverndar og virðingarleysi fyrir annars konar nýtingaráformum en þeim sem fela í sér línur og línuvegi.

Ég á erfitt með að sætta mig við að Suðurnesjamenn vilji búa í umhverfi þar sem fyrirætlanir eru um stóraukna brennisteinsmengun, aukna tíðni jarðskjálfta og stórar og öflugar raflínur með tilheyrandi segulsviði. Ég á erfitt með að trúa því að Íslendingar vilji í raun og veru sjá eitt samfellt orkuvinnslusvæði eftir öllum Reykjanesskaganum. Þetta er ekki bara einkamál náttúruverndarsinna, sveitarstjórnamanna á Suðurnesjum, erlendra ferðamanna eða landeigenda. Þetta er spurning um heilsufar og lífsgæði og spurning um hvort við erum öll tilbúin að kveðja Reykjanesskagann eins og við þekkjum hann í dag.

Og þessi grein er ekki bara létt hugvekja – hún er ákall um hjálp.




Skoðun

Sjá meira


×