Erlent

Hefur setið inni í 15 ár fyrir tilstilli föður síns

Eid- al-Sinani hefur setið í fangelsi í tæp 16 ár.
Eid- al-Sinani hefur setið í fangelsi í tæp 16 ár.
Maður í Sádí-Arabíu, sem var fangelsaður árið 1997 fyrir að slá stjúpmóður sína, hefur þurft að afplána margfalt lengri dóm - einfaldlega vegna þess að faðir hans krafðist þess.

Eid al-Sinani er nú 43 ára gamall. Hann var upphaflega dæmdur í þriggja ára fangelsi og þurfti að þola 200 svipuhögg aukalega.

Þegar það tók að styttast í annan endann á fangelsisvistuninni krafðist faðir al-Sinani að vistunin yrði lengd. Dómari samþykkti beiðni hans.

Tólf ár eru liðin og al-Sinani er enn á bak við lás og slá.

Sharia-lög eru í Sádí-Arabíu. Samkvæmt þeim eru dómar ekki fordæmisgefandi og er dómurum frjálst að úrskurða í málum út frá sínum eigin túlkunum á lögunum.

Alþjóðlegu mannréttindasamtökin NSHR berjast nú fyrir því að al-Sinani verði frelsaður úr fangelsi.

„Við erum vongóð um að honum verði sleppt," sagði Musab al-Zahrani, talsmaður NSHR. „Hann hefur nú setið í fangelsi í tæp 16 ár og ákæran á hendur honum er óljós. Þetta er auðvitað flókið mál enda var föður hans gefið algjört vald - örlög al-Sinani eru algjörlega á valdi hans."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×