Séra Sigurði Helga Guðmundssyni, þáverandi framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins Eirar, var óheimilt að greiða tengdasyni sínum lögmannskostnað með því að láta Eir kaupa sólarlandaferð fyrir hann og fjölskyldu hans á 200 þúsund krónur.
Þetta er niðurstaða Ríkisendurskoðunar, sem leggur til að séra Sigurði verði gefinn kostur á að ljúka málinu með því að endurgreiða 200 þúsund krónurnar.
"Verði hann ekki við þeirri málaleitan verði á hinn bóginn nauðsynlegt að íhuga næstu skref í málinu og mun Ríkisendurskoðun reiðubúin til þess að láta í ljós álit á þeim möguleikum, sem þá yrðu í stöðunni," segir í svarbréfi sem Ríkisendurskoðun sendi til núverandi framkvæmdastjóra Eirar, Sigurðar Rúnars Sigurjónssonar, í fyrradag.
Sigurður Rúnar hafði farið þess á leit við embættið að það tæki til skoðunar greiðslu til Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, tengdasonar séra Sigurðar, í formi ferðar til Alicante á Spáni.
Séra Sigurður segir í svarbréfi sínu að þáverandi stjórnarformanni Eirar, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, hafi verið "vel kunnugt" um að hann hefði leitað lögfræðiaðstoðar fyrir Eir á þessum tíma.
"Sá er þjónustuna veitti var tregur til að rukka fyrir veitta þjónustu, sem var í sumum tilvikum veruleg, og leið mér ekki vel með það. Ég ákvað því að veita honum umbun fyrir aðstoðina með ávísun á farseðil, en hefði eins vel getað verið greitt með peningum. Tel ég reyndar fullvíst að ef annar háttur hefði verið hafður á hefði kostnaður Eirar vegna þessa numið mun hærri fjárhæðum."
Í svari Ríkisendurskoðunar til Eirar er hins vegar farið hörðum orðum um þessa ráðstöfun Sigurðar. "Engin haldbær gögn eða upplýsingar liggja þannig fyrir um í hverju meint lögfræðiþjónusta, sem umrætt gjafabréf er sagt hafa verið endurgjald fyrir, hafi verið fólgin," segir ríkisendurskoðandi. Lögmaðurinn hafi hvorki gefið út neinn reikning vegna "hinnar meintu vinnu" né vísað til samkomulags við hann.
"Af sömu sökum hefur ekki verið gefinn út verktaka- eða launamiði vegna útgjalda þessara, svo sem lögskylt er ef um þjónustukaup af þessu tagi er að ræða. Loks er þess að geta að umræddur lögmaður, sem fyrrverandi forstjóri umbunaði með framangreindum hætti, mun vera tengdasonur hans."
Ríkisendurskoðandi telur því að líta verði svo á að greiðslan hafi verið óheimill örlætisgerningur "með vísan til lögformlegrar stöðu Hjúkrunarheimilisins Eirar sem sjálfseignarstofnunar er starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, skipulagsskrárinnar sem slíkrar, umboðs fyrrverandi forstjóra til að skuldbinda sjálfseignarstofnunina, trúnaðarskyldu hans gagnvart henni og tengsla fyrrverandi forstjóra við umræddan lögmann svo og með hliðsjón af meginreglum laga um bókhald og laga um ársreikninga, sem og laga um tekjuskatt og laga um virðisaukaskatt."
Fóru til Hollands fyrir bleyjusjóðinn

Á þeim tíma voru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Magnús L. Sveinsson formaður og varaformaður stjórnar Eirar.
stigur@frettabladid.is