Innlent

Nýtt kjarasamkomulag við ríkið kolfellt af kennurum

Skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla segir niðurstöðuna seinka innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla enn frekar.
Skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla segir niðurstöðuna seinka innleiðingu nýrra laga um framhaldsskóla enn frekar. Fréttablaðið/valli
Framhaldsskólakennarar kolfelldu samkomulag ríkisins og FF. Niðurstaðan vonbrigði, segir menntamálaráðherra. Skólameistari býst við frekari frestun á innleiðingu laga. Skýrist af bullandi óánægju með kjör.

Félagsmenn í Félagi framhaldsskólakennara (FF) kolfelldu samkomulag ríkisins, FF og Félags stjórnenda í framhaldsskólum í allsherjaratkvæðagreiðslu sem lauk á mánudag. Tæplega 75 prósent félagsmanna neituðu samkomulaginu.

Um er að ræða viðbót við núgildandi kjarasamning framhaldsskólakennara síðan í fyrra, sem gildir til marsloka 2014. Viðbótin er liður í innleiðingu nýrra framhaldsskólalaga sem voru samþykkt árið 2008.

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, býst ekki við því að niðurstaðan muni fresta innleiðingu laganna, en áætlað er að þau verði innleidd að fullu árið 2015.

„Auðvitað eru þetta ákveðin vonbrigði. Þetta var gluggi sem opnaðist í samningum sem gilda til ársins 2014 og okkur gafst færi á að endurskoða þá,“ segir Katrín. „Ég vonaði að þetta gæti orðið liður í að bæta kjör kennara sem eru sannarlega ekki nægilega góð á Íslandi. En ég er ekki að sjá fyrir mér að lögunum verði frestað frekar.“

Steinn Jóhannsson, skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, er ósammála menntamálaráðherra.

„Þetta mun án efa seinka innleiðingu laganna,“ segir hann. „Það eru vonbrigði að samkomulagið náðist ekki, en það kemur mér ekki á óvart miðað við umræðurnar síðustu vikur.“ Í ljósi þess að samningurinn var felldur munu framhaldsskólakennarar ekki taka þátt í vinnu við nýjar námskrár, sem er einn liður í innleiðingu laganna.

„Þeirra stærsta vinna er að þróa nýjar áfangalýsingar í samræmi við ný lög. Við vonuðumst eftir því að fjármagn myndi skila sér svo kennarar fengju borgað, en því miður vitum við ekkert hvað gerist núna,“ segir hann. „Ég er spenntur að heyra hvað ríkisvaldið mun gera.“

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir niðurstöðuna ekki koma á óvart. Bullandi óánægja framhaldsskólakennara með laun og kjaramál skýri að hluta til afstöðu þeirra.

„Við vorum margsinnis búin að ítreka að ef innihaldið yrði rýrt yrðu viðtökurnar ekki góðar,“ segir hún. „Nú hafa kennarar talað og þetta er niðurstaðan.“

Aðalheiður segir ríkisvaldið þurfa að hafa frumkvæði að því að boða til samningafunda á ný.

„Héðan í frá munum við undirbúa harða kjarasamninga fyrir árið 2014. Við munum koma þeim skilaboðum til kennara að þeir taki ekki að sér vinnu við að þróa nýjar námsbrautir, nema það sé skýlaust greitt samkvæmt ákvæðum.“

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×