Innlent

1.250 milljónir fyrir eins árs á leikskóla

Kostnaður við að bjóða börnum í Reykjavík leikskólapláss í ágúst á öðru ári, ári fyrr en nú er, gæti numið 1.250 milljónum, fyrir utan byggingarkostnað vegna nýbygginga.

Þetta er meðal niðurstaðna teymis sem skóla- og frístundaráð skipaði til að gera úttekt á áhrifum sem slík breyting gæti haft á dagforeldra og stöðu foreldra á vinnumarkaði. Í skýrslunni er miðað við að öllum börnum sem höfðu náð eins árs aldri fyrir ágúst í ár hafi verið boðið pláss í haust.

Þar er um að ræða 740 börn og af þeim voru 400 þegar í vistun hjá dagforeldri. Miðað við að þau börn færu yfir á leikskóla myndi dagforeldrum fækka um helming, eða 80-100. Á móti kemur að bæta þyrfti við 224 stöðugildum á leikskólunum og byggja þyrfti sex ungbarnaleikskóla.

Breytingin gæti þó haft jákvæð áhrif, meðal annars gert foreldrum, sérstaklega mæðrum, auðveldara að fara fyrr út á vinnumarkaðinn að loknu fæðingarorlofi.

Könnun var gerð meðal foreldra barna í dagvistun. Þar kemur meðal annars fram að tæpur helmingur svarenda telur að börn ættu að komast inn á leikskóla átján mánaða eða yngri, en rúmum helmingi finnst að börn ættu að komast inn nítján mánaða og eldri.

Oddný Sturludóttir, formaður skóla- og frístundaráðs, segir að það hafi komið sér á óvart því að hún hafi fyrirfram talið að fleiri vildu fá börnin inn fyrir átján mánaða aldur. Í skýrslunni megi líka sjá að stór hópur foreldra sé ánægður með umönnun dagforeldra þegar börnin eru á vissum aldri. Oddný segir skýrsluna fróðlega og margt hægt að vinna upp úr henni. „En þarna er um að ræða mikla fjármuni og við gerum auðvitað ekki ráð fyrir að stíga skrefið til fulls á næsta ári."

Skóla- og frístundaráð hefur óskað eftir frekari greiningu á möguleikum til lengri tíma. Meðal annars verði metin áhrif á kynbundinn launamun og atvinnustig kynjanna. Þá verður húsnæðisþörf metin eftir hverfum, en stærsta áskorunin segir Oddný hins vegar að ráða inn starfsfólk til að annast aukinn fjölda barna.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×