Innlent

Merkisþorskur lenti í hvalsmaga

Hér er Jóhannes Sturlaugsson, frá Laxfiskum, við merkingar með samstarfsmanni.
mynd/laxfiskar
Hér er Jóhannes Sturlaugsson, frá Laxfiskum, við merkingar með samstarfsmanni. mynd/laxfiskar
Gögn frá gervitunglamerki sem rannsóknafyrirtækið Laxfiskar festi á þorsk í apríl síðastliðnum sýndu að þegar hann hafði borið merkið í tæpa fimm mánuði var hann étinn af búrhval. Merkið var í hvalnum í rúman mánuð þar til hann skilaði því af sér og það flaut upp á yfirborðið. Nokkrum dögum seinna hófust sendingar frá merkinu í gervitungl, samkvæmt áætlun. Merkið hafði safnað gögnum samfellt síðan það var sett á þorskinn um vorið, þar með talið á meðan það var í hvalnum. Það gefur einstakar upplýsingar um hegðun hvalsins þennan mánaðartíma, segir á vef Laxfiska.

Fréttablaðið sagði frá því á dögunum að Laxfiskar og samstarfsaðilar fyrirtækisins hefðu tekið í notkun nýja tækni sem gerir kleift að fylgjast með ferðum þorska við Ísland. Tæknin byggir á fiskmerkjum sem senda upplýsingar um ferðir fiskanna um gervitungl. Þannig fást gögn um hegðun og umhverfi fiskanna án þess að endurveiða fiskana, sem er nýjung í þorskrannsóknum. Slík gögn gefa meðal annars nýjar hagnýtar upplýsingar um þorskinn þegar hann dvelur utan veiðislóðar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×