Erlent

Umdeildar nafnabirtingar í nasistabók

Frá Osló Nýútgefin bók um stríðsárin í Noregi hefur valdið deilum um sagnfræði og vinnubrögð.
Frá Osló Nýútgefin bók um stríðsárin í Noregi hefur valdið deilum um sagnfræði og vinnubrögð.
Ný bók um Norðmenn og seinni heimsstyrjöldina hefur vakið mikið umtal. Í bókinni, sem ber heitið Miskunnarlausu Norðmennirnir, nafngreinir höfundurinn Eirik Veum hundruð manna sem tengdust ríkislögreglunni, sem vann með herliði nasista á hernámsárunum 1940 til 1945.

Veum réttlætir nafnbirtingarnar með því að segja þær hluta af nauðsynlegu uppgjöri þjóðarinnar.

„Við þurfum að átta okkur á því að Norðmenn frömdu einhver verstu ódæðin á stríðsárunum, og að við tókum meiri þátt í stríðsglæpum en áður hefur verið talið," segir Veum við Aftenposten.

Hann hefur hins vegar verið gagnrýndur fyrir vafasama heimildavinnu, þar sem hann styðst að mestu leyti við yfirheyrslur, dómsmál og fjölmiðlaumfjöllun frá 1945, sem þykja litast mikið af tíðarandanum sem þá ríkti en þúsundir manna hlutu dóm fyrir að vinna með hernámsliðinu, þrjátíu voru dæmdir til dauða og 25 teknir af lífi.

Þá hefur Veum verið gagnrýndur fyrir að nafngreina fólk sem kom ekki nálægt pyndingum, drápum eða stríðsglæpum.

Meðal annars er tiltekin kona sem var sautján ára gömul þegar hún vann á skrifstofu ríkislögreglunnar í Stavanger. Veum tekur sjálfur fram að óvíst sé hvort stúlkan hafi fengið dóm eftir stríðið, en hún rataði engu að síður í bókina undir nafni.

Veum ráðgerir að skrifa tvær bækur til viðbótar um efnið. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×