Skoðun

Það nægir að merkja "já“ við fyrstu spurningunni

Hans Kristján Árnason skrifar
Á laugardaginn kemur, 20. október, fer fram kosning um tillögur að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Margir hafa sagt við mig að þeir treysti sér ekki til að mæta á kjörstað vegna þess að það sé erfitt að taka ákveðna afstöðu til allra sex spurninganna á kjörseðlinum, jafnvel þó viðkomandi sé á þeirri skoðun að tillögur stjórnarskrárráðsins efli lýðræðið á Íslandi og séu augljóslega mikil réttarbót, miðað við núgildandi stjórnarskrá.

Þessi ótti er ástæðulaus. Það nægir að merkja aðeins við fyrstu spurninguna á kjörseðlinum.

Ef kjósendur telja að með tillögunum um nýja stjórnarskrá sé stigið skref í átt til réttlátara þjóðfélags, þá nægir að mæta á kjörstað núna á laugardaginn og merkja „JÁ" við fyrstu spurningunni.

Og spurningin er: „Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá."

Ekki þarf því að taka afstöðu til allra hinna fimm spurninganna, því einfalt „já" nægir til að lýsa stuðningi við þessa mestu réttarbót í sögu lýðveldisins.

Það, að sitja heima og taka ekki þátt í kosningunni á laugardaginn, er að mínu mati glatað tækifæri til að bæta okkar gallaða þjóðfélag.

Mætum á kjörstað og merkjum a.m.k. „já" við fyrstu spurningunni! Með því styðjum við réttarbót fyrir okkur í framtíðinni.




Skoðun

Sjá meira


×