Lífið

Fjörutíu milljóna klúbbhús frá góðærinu er til sölu

Innréttingarnar eru „stórglæsilegar“ að mati Miðbæjar og telst eignin vera kjörin piparsveinaíbúð eða klúbbhús.
Innréttingarnar eru „stórglæsilegar“ að mati Miðbæjar og telst eignin vera kjörin piparsveinaíbúð eða klúbbhús.
„Við vorum nokkrir félagar sem áttum þessa húseign og erum búnir að selja hana. Við áttum golfhermi saman inni í þessu húsi og spiluðum golf þarna og horfðum á enska boltann. Það var nú ekkert merkilegra en það,“ segir Ragnar Gíslason, viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi.

Hann var einn af eigendum húseignar að Nýbýlavegi í Kópavogi sem nú er til sölu hjá fasteignasölunni Miðbæ. Hún hefur vakið mikla athygli enda auglýst sem tilvalin piparsveinaíbúð eða klúbbur fyrir „góðan hóp manna/kvenna“.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins festu Ragnar og félagar hans kaup á klúbbnum í gegnum félagið NY 19 ehf á tímum góðærisins. Núna er það félagið Efniviður-Landmark ehf. sem á klúbbinn, en það er í eigu Magnúsar Einarssonar fasteignasala.

Í lýsingu Miðbæjar segir að um 188,5 fermetra íbúð eða klúbb sé að ræða sem búið sé að innrétta á stórglæsilegan hátt. Steinteppi er á gólfum, veggir eru klæddir með viðarveggklæðningum og plexígleri, tvöfaldur ísskápur með vínkæli er í eldhúsinu og baðherbergið klætt með granít. Eignin er skráð með 30 fm bílskúr en í dag er þar herbergi með golfhermi.

Innréttingarnar, þar sem fjólublár litur kemur víða við sögu, hafa einnig vakið athygli. „Þær voru flottar og eru flottar,“ segir Ragnar um innréttingarnar. „Við sjáum ekkert eftir því. Við gerðum þetta bara vel.“

Samkvæmt upplýsingum frá Miðbæ er vonast til að eignin seljist á um fjörutíu milljónir króna.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.