Lífið

Lára sýnir djarfari hliðar

Söngkonan Lára Rúnarsdóttir gaf nýverið út smáskífuna Beast, en það er fyrsta lagið til að fara í spilun af væntanlegri breiðskífu sem sýnir nýjar og dimmari hliðar.
Söngkonan Lára Rúnarsdóttir gaf nýverið út smáskífuna Beast, en það er fyrsta lagið til að fara í spilun af væntanlegri breiðskífu sem sýnir nýjar og dimmari hliðar. Fréttablaðið/Valli
„Það er fullt af bjartsýni þarna en sömuleiðis er þetta viðurkenning á að maður sé ekki alltaf í góðu jafnvægi," segir Lára Rúnarsdóttir um væntanlega breiðskífu sína, Moment, sem kemur út 21. október.

Smáskífan Beast, sem kom út á dögunum, er undanfari þeirrar plötu og segir Lára nýju tónsmíðarnar sýna dekkri og dimmari hliðar sínar. „Hið dekkra birtist meðal annars í hljóðheiminum, viðfangsefninu og raddbeitingunni. Það er aðeins meiri djús í þessu," segir hún og bætir við að núna hafi hún þorað að vera djarfari í tónsköpuninni.

En hvað veldur því? „Ég held að það sé aukið sjálfstraust og meiri vitund um það hverju ég vil ná fram. Auk þess er ég orðin svo afslöppuð með hljómsveitinni minni." Að sögn Láru svipar laginu Beast mun meira til fyrri verka hennar en lögunum af væntanlegu breiðskífunni.

En um hvað fjallar lagið? „Þetta er um skrattann sem kemur upp í manni. Mann langar að gera eitthvað djarft og lifa á brúninni en samt vill maður vera rosa skipulagður og gera allt pottþétt. Þetta fjallar um hinn pólinn þegar maður leyfir sjálfum sér að vera í ruglinu."

Útgáfutónleikar Láru verða haldnir 23. nóvember en einnig mun hún leika nýju lögin á Iceland Airwaves-hátíðinni í byrjun nóvember. „Svo er Beast aðeins byrjað að heyrast á Rás 2 en lagið hefur verið rosa fljótt að taka við sér," segir Lára sem fagnaði þrítugsafmæli sínu í gær.

- hþt






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.