Lífið

Fimmtíu ára afmæli Bond

Andress í myndinni Dr. No sem kom út fyrir fimmtíu árum.
Andress í myndinni Dr. No sem kom út fyrir fimmtíu árum.
Slétt fimmtíu ár eru liðin síðan James Bond sást fyrst á hvíta tjaldinu í myndinni Dr. No. Myndin fékk misjafna dóma en gekk mjög vel í miðasölunni.

Með hlutverk njósnara hennar hátignar fór ungur leikari, Sean Connery, sem átti heldur betur eftir að setja mark sitt á kvikmyndaseríuna.

Dr. No var byggð á samnefndri skáldsögu Ians Fleming frá árinu 1958, sem var sú sjötta sem hann skrifaði um 007. Í henni er Bond sendur til Jamaíka til að rannsaka dauða annars bresks njósnara. Hann kemst að því að Dr. Julius No ætlar að eyðileggja mannaða geimferð Bandaríkjanna með geislavopni sínu.

Myndin kostaði lítið í framleiðslu en náði miklum vinsældum. Gagnrýnendur gáfu henni misjafna dóma en í gegnum árin hefur hróður hennar aukist og núna er hún af mörgum talin meðal þeirra betri í seríunni. Margir muna eftir frægu atriði úr Dr. No þegar Bond-stúlkan Ursula Andress gekk upp úr sjónum.

Margt annað úr myndinni átti eftir að festa sig í sessi í næstu Bond-myndum, þar á meðal hin fræga kynning: Bond, James Bond. Mikil hátíðarhöld voru í Bretlandi í september til að fagna þessu fimmtíu ára Bond-afmæli. Roger Moore og fleiri stjörnur úr myndunum komu fram á frægum tökustöðum þeirra.

Fyrrverandi Bond-stúlkurnar Eunice Gayson, Britt Ekland og Shirley Eaton voru á meðal stjarnanna, auk illmennisins og stálkjaftsins Richard Kiel. Þau heimsóttu skoska kastalann Eilean Donan, Penbryn-ströndina í Wales og Stoke-garðinn á Englandi. Nýjasta myndin um James Bond, Skyfall, kemur í bíó 26. október. Sem fyrr fer Daniel Craig með hlutverk njósnara hennar hátignar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.