Lífið

Bjóða upp á kaffi fyrir túrinn

Kría Cycles er flutt í nýtt og betra húsnæði. Eigendurnir, David Robertson og Emil Guðmundsson, bjóða hjólafólki nú einnig upp á kaffi fyrir hjólatúrinn.
Kría Cycles er flutt í nýtt og betra húsnæði. Eigendurnir, David Robertson og Emil Guðmundsson, bjóða hjólafólki nú einnig upp á kaffi fyrir hjólatúrinn. fréttablaðið/valli
„Við þurftum stærra húsnæði því hitt var orðið of lítið. Við vildum gera verslunina fagmannlegri og fallegri en á sama tíma halda þessu afslappaða umhverfi sem var á gamla staðnum," útskýrir David Robertson sem rekur hjólaverslunina Kríu Cycles ásamt Emil Guðmundssyni.

Verslunin var flutt í nýtt húsnæði við Grandagarð 7 og þar munu piltarnir ekki aðeins bjóða upp á hjólaviðgerðir heldur einnig kaffi. „Okkur langaði alltaf að hafa svolítið kaffisvæði í versluninni. Þetta verður þó ekki kaffihús sem slíkt heldur getur fólk komið við fyrir eða eftir hjólatúrinn og fengið sér kaffibolla. Það er fátt betra en góður espresso eftir hjólatúr."

Kría Cycles var áður til húsa í Hólmaslóð og þó piltarnir vildu færa sig nær miðbænum langaði þá að vera áfram á Grandasvæðinu. „Svæðið er orðið svo skemmtilegt og líflegt. Á þeim tíma sem við höfum verið hér hefur það tekið miklum breytingum til hins betra."

David segir viðskiptin ganga vel enda hafi orðið vitundavakning meðal Reykvíkinga. „Fólk tekur hjólreiðar mun alvarlegar en áður. Reykjavík er lítil borg og það er stutt fyrir marga að hjóla á milli heimilis og vinnu.

Þó það sé ekki hægt að breyta veðráttunni á Íslandi þá hafa hjólin orðið betri með árunum og hjólastígarnir og hlífðarfatnaðurinn sömuleiðis. Þess utan er fólk meðvitaðra um umhverfið, líkamshreyfingu og útivist og hjólreiðar tvinna þetta þrennt saman."-sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.