Skoðun

Best geymda leyndarmál um 2.000 barna á Íslandi

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar
Á árinu 2011 birtu Barnaheill – Save the Children á Íslandi niðurstöður rannsóknar um stuðning þann sem í boði er fyrir börn í Reykjavík sem verða vitni að heimilisofbeldi. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli og umræður meðal almennings og fagfólks. Tölur sem bárust frá Íslandi í rannsóknina gáfu til kynna að 2.000 börn yrðu á ári hverju vitni að heimilisofbeldi (2,5% íslenskra barna). Ekki er óvarlegt að álykta að börnin séu enn fleiri því heimilisofbeldi er oftar en ekki eitt besta geymda leyndarmál fjölskyldu.

Heimili á að vera griðastaður þeirra sem þar búa. Þar á fólk að finna fyrir öryggi og vernd og þar á fólki að líða vel. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á umönnun, öryggi og vernd gegn ofbeldi. Börn sem búa við ofbeldi á heimilum sínum njóta ekki þessa réttar sáttmálans. Þau hafa heyrt og séð atburði sem ekkert barn á að þurfa að upplifa. Börn sem eru vitni að ofbeldi á heimili, ofbeldi annars foreldris gegn hinu eða á milli foreldra, eru einnig fórnarlömb ofbeldisins. Ástandið hefur skaðleg áhrif á börnin.

Það var mat Barnaheilla eftir útkomu skýrslunnar að félagsþjónusta, barnavernd, lögregla, heilbrigðisstofnanir og dómskerfi þyrftu að taka mið af aðstæðum barnanna í starfsemi sinni og vinna á markvissan og samhæfðan hátt að því að finna börnin, hlusta á þau og veita þeim viðeigandi öryggi og þjónustu. Þörf væri á heildstæðri stefnu, auk þess sem huga þyrfti að löggjöf. Skólasálfræðingar sögðust til dæmis ekki hafa móttekið beiðnir frá félagsþjónustu um að ræða við börn mæðra sem leita til félagsþjónustunnar og orðið hafa fyrir ofbeldi. Á þessum tíma var enginn sérstakur starfsmaður í Kvennaathvarfinu til að sinna börnum mæðra sem voru þolendur heimilisofbeldis.

Í kjölfar birtingar skýrslunnar hafa verið gerðar úrbætur á ýmsum sviðum. Í Reykjavík er nú starfrækt bakvaktarþjónusta í barnavernd allan sólarhringinn og ávallt fer starfsmaður barnaverndar með lögreglu í útköll þar sem barn er skráð til heimilis. Starfsmenn Kvennaathvarfsins segja niðurstöður rannsóknarinnar hafa aukið meðvitund þeirra um stöðu barna sem koma í athvarfið. Samkvæmt upplýsingum frá Kvennaathvarfinu eru börn nánast helmingur þeirra sem dvelja þar.

Söfnuninni „Öll með tölu“ er ætlað að afla fjármuna til kaupa á nýju húsnæði fyrir Kvennaathvarfið, meðal annars til að hægt verði að sinna börnum sem koma með mæðrum sínum í athvarfið á fullnægjandi hátt. En betur má ef duga skal. Mikilvægt er að börnum sé ekki mismunað eftir búsetu eða annarri stöðu. Miklu máli skiptir að alls staðar á landinu sé bakvaktarþjónusta hjá barnavernd og stuðningur fyrir börn sem búa við ofbeldi á heimili. Almenningur og fagfólk þarf að bregðast við með viðeigandi hætti ef það telur barn búa við ofbeldi á heimili. Börn þurfa öryggi,vernd og stuðning. Til að svo geti orðið verður að vera til heildstæð stefna, með viðeigandi skimun, úrræðum, formlegu samstarfi og samhæfingu á milli stofnana, þ.á.m. lögreglu, barnaverndar, félagsþjónustu, skólakerfis, dómskerfis og heilbrigðisþjónustu.

Tryggja þarf að verklagsreglur séu til staðar og í notkun hjá viðkomandi stofnunum. Þær feli í sér greinargóðar upplýsingar um hvernig starfsmenn skuli bregðast við ef ofbeldi á sér stað, m.a. verði að tryggja að rætt sé við börnin og gert mat á líðan þeirra og þörf þeirra á stuðningi eða meðferð.

En umfram allt þarf að efla vitund og fræðslu meðal fagfólks og almennings um að börn sem búa á heimilum þar sem ofbeldi á sér stað eru líka fórnarlömb ofbeldisins og allt skuli gert til að veita þeim stuðning og aðstoð. Best væri að sjálfsögðu að fyrirbyggja þá stöðu að barn verði fórnarlamb heimilisofbeldis. Til að svo geti orðið þarf að auka forvarnir í íslensku samfélagi, bæta stuðning við börn og barnafjölskyldur og auka vitund um réttindi barna.




Skoðun

Sjá meira


×