Skoðun

Siðferði í stjórnmálum

Dögg Harðardóttir skrifar
Það hefur varla farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fréttum að velferðarráðherra hækkaði laun forstjóra Landspítalans umtalsvert án samráðs við nokkurn mann. Í Rannsóknarskýrslu Alþingis kom fram að ein af ástæðum hrunsins hefði verið sú að ráðamenn tóku ákvarðanir upp á eigin spýtur eða tóku ákvarðanir gegn áliti ýmissa álitsgjafa.

Í kjölfar hrunsins komst ný ríkisstjórn til valda sem gagnrýndi vinnubrögð forvera sinna og ætlaði að bæta siðferðið í stjórnmálum. Ákveðið var að hrinda af stað vinnu til að semja nýja stjórnarskrá því að loka þyrfti fyrir spillingu af því tagi sem áður tíðkaðist. Þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnar um spillingu annarra þá velur einn ráðherrann leið sem Rannsóknarskýrsla Alþingis hefur þegar gjaldfellt.

Nú hlýtur að reyna á hversu mikil alvara var á bak við orðin um bætt siðferði. Siðferði í stjórnmálum verður ekki bætt ef stjórnmálamenn byrja ekki á sjálfum sér. Hversu dapurlegt sem það kann að virðast þá er eina leið ríkisstjórnarinnar að láta ráðherrann víkja, eigi hann ekki frumkvæði að því sjálfur. Vegna þeirrar aðferðar sem velferðarráðherra kaus þá virðist Rannsóknarskýrsla Alþingis í besta falli vera söguleg heimild sem óþarfi sé að læra eitthvað af.

Þó svo að velferðarráðherra rökstyðji mikilvægi launahækkunar er leiðin sem hann fór óverjandi.

Rannsóknarskýrsla Alþingis gagnrýndi einmitt svona vinnubrögð þrátt fyrir ótal réttlætingar og rökstuðning gerendanna. Þar sem kosningar eru í vændum verður fróðlegt fyrir kjósendur að fylgjast með hvort og hvernig ríkisstjórnin bregst við. Upp á hana stendur að varpa af sér ásökun um spillingu.




Skoðun

Sjá meira


×